Heilsuvernd í framhaldsskólum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 19:05:16 (1458)

2001-11-12 19:05:16# 127. lþ. 26.19 fundur 37. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., SoG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Soffía Gísladóttir:

Herra forseti. Hér hefur verið flutt till. til þál. um heilsuvernd í framhaldsskólum sem hv. þm. Ásta Möller kynnti. Ég er ekki meðflm. að tillögunni, kem inn sem varamaður, en vil gjarnan fylgja tillögunni úr hlaði. Þetta er mjög vönduð tillaga og sérstaklega vönduð greinargerð sem fylgir henni.

Ég vil, eins og mér er tamt, tala sérstaklega um dreifbýlið og nemendur í dreifbýlinu, ég tala nú ekki um nemendur sem fara í burt af heimilum sínum til að stunda framhaldsnám annars staðar. Það eru ekki síst þeir sem þyrftu á aðstoð sem þessari að halda í námi og í fjarveru sinni frá heimili. Þar vil ég sérstaklega nefna næringu og geðvernd.

Mikið brottfall er hjá framhaldsskólanemum og hver orsökin er getum við ekki sagt, en hún er mjög margvísleg. Það getur m.a. orsakast af næringarleysi sem hefur mikil áhrif á framgöngu ungmenna í námi og ekki síst geðheilsu barnanna sem eru fjarri heimilum sínum.

Í flestum framhaldsskólum eru starfandi námsráðgjafar en heilbrigðisstarfsmenn koma á annan hátt að málum en námsráðgjafar og tel ég þá vera mjög mikilvæga innan veggja framhaldsskólanna til stuðnings námsráðgjöfunum og þeim nemendum sem þar stunda nám.

Sérlega vönduð greinargerð fylgir tillögunni, ég vil ítreka það, og vonast til að þessi till. til þál. fái jákvæða umfjöllun.