Heilsuvernd í framhaldsskólum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 19:07:19 (1459)

2001-11-12 19:07:19# 127. lþ. 26.19 fundur 37. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um heilsuvernd í framhaldsskólum er að mínu viti mjög gott mál eins og hv. 1. flm., Ásta Möller, gerði grein fyrir í ræðu sinni.

Það atriði sem ég vildi draga inn í umræðuna, herra forseti, er einmitt staða framhaldsskólanema sem koma ekki hvað síst hingað á höfuðborgarsvæðið af landsbyggðinni og möguleikar þeirra til að komast að almennri heilsugæslu. Úti um land er hin almenna heilsugæsla yfirleitt miklu nær fólki, en þegar það kemur hingað er mjög erfitt að komast til læknis. Að vísu er Læknavaktin starfandi fyrir þá íbúa sem ekki hafa flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur, en um leið og aðgengi að slíkri þjónustu er jafntorvelt og það er hér er líklegra að þetta unga fólk hafi sig síður í að sækja þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem það þarf kannski á að halda á hverjum tíma. Þess vegna tek ég heils hugar undir þáltill. og þann vilja sem þar birtist um nauðsyn þess að í framhaldsskólakerfinu sjálfu sé reynt að tryggja almenna heilbrigðisþjónustu og hún sé nemendum til boða.

Ég legg áherslu á þá stöðu unga fólksins sem kemur utan af landi til Reykjavíkur, ég ítreka það. Stór hluti af því verður að koma hingað vegna þess að nám er skipulagt á þann hátt og þá þarf þessi þjónusta einmitt að vera þeim nærtæk og góð.