Heilsuvernd í framhaldsskólum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 19:09:42 (1460)

2001-11-12 19:09:42# 127. lþ. 26.19 fundur 37. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., Flm. ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[19:09]

Flm. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls og lýst yfir stuðningi sínum við tillöguna. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að mikilvægt er að ungmenni hafi aðgang að heilsugæslu. Ýmsar rannsóknir sýna að þau veigra sér við að nota þau úrræði sem eru í dag að leita til heilsugæslustöðva. Ýmsar ástæður eru fyrir því, t.d. átta þau sig kannski ekki á því hver þörf þeirra er fyrir heilbrigðisþjónustu og hvaða aðstoðar þau geta leitað til heilbrigðisþjónustunnar. Opnunartíminn er líka óhagkvæmur fyrir þau og jafnframt virðist vera sem þau veigri sér við að ræða ýmis trúnaðarmál við heilbrigðisstarfsmenn. Það er einmitt ástæðan fyrir því að umræðan snýst um að færa heilsugæsluna meira til ungmenna þannig að þau hafi greiðari aðgang að heilsugæslunni í staðinn fyrir að snúa því við að þau þurfi að koma þangað. Þær tilraunir sem nú þegar hafa verið gerðar í sambandi við heilsugæslu í framhaldsskólum eru þær að hjúkrunarfræðingar og/eða læknar eru til staðar, eru með opna skrifstofu, ákveðinn opnunartíma og ungmenni geta leitað inn án þess endilega að þurfa að gefa upp einhver tiltekin erindi. Það getur leitt til umræðna sem verða til þess að þau opna sig. Það er því mikilvægt að koma til móts við þessi ungmenni. Það mun borga sig þó síðar verði. Þetta er fjárfesting til framtíðar og hún mun skila arði þegar til lengri tíma er litið.

Það má jafnframt benda á að í stefnuræðu hæstv. forsrh. kom fram annars vegar stuðningur við að búa enn betur að heilsugæslunni í landinu jafnframt því að leggja áherslu á geðheilbrigðismál. Hvort tveggja kemur fram í þáltill. Ég vil því þakka fyrir þær undirtektir sem hv. þm. hafa lýst hér og vonast til að á þessu þingi verði þáltill. afgreidd.