Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 19:12:25 (1461)

2001-11-12 19:12:25# 127. lþ. 26.20 fundur 38. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., Flm. KF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök. Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Pálsson, Ásta Möller, Ísólfur Gylfi Pálmason, Gunnar Birgisson, Drífa Hjartardóttir og Árni R. Árnason. Í tillögunni segir:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi og hvernig samskiptum stjórnvalda og sveitarstjórna við þau er háttað. Jafnframt skili nefndin tillögum til ríkisstjórnarinnar um hvernig samráði stjórnvalda við frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála verði hagað með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem undirritaður var í Árósum 23.--25. júní 1998.``

Herra forseti. Ég ætla ekki að endurtaka ræðu mína frá því að þessi tillaga var áður flutt en rifja aðeins upp að umhverfisverndarsamtök, af því að þeirra er sérstaklega getið í seinni hluta tillögunnar, hafa fjölþætt hlutverk. Hér á landi eru mörg slík samtök. Þau eru fámenn, þau eru fjölmenn. Hver um sig hafa sína sérstöðu en þau eru umræðuvettvangur, þau hafa alþjóðleg tengsl og eru umsagnaraðilar fyrir stjórnvöld. Þau gagnrýna stjórnvöld og þau geta hrósað stjórnvöldum. Þau vekja athygli á því sem miður kann að fara og stuðla jafnvel að rannsóknum og auknum rannsóknum á sviði umhverfismála. Ég tel því afar mikilvægt að efla slík samtök og með því að lögfesta þann samning sem undirritaður var í Árósum fyrir þremur og hálfu ári tel ég að stigið sé mikilvægt skref í því að uppfylla skuldbindingar okkar og feta í fótspor margra annarra þjóða sem vilja hafa góð samskipti milli frjálsra félagasamtaka og stjórnvalda.

Ég vona síðan, herra forseti, að tillögunni verði vísað til hv. umhvn. og hún komi hingað aftur. Hún var eins og ég sagði áðan áður til umræðu en umræðunni lauk ekki þar sem í ljós kom að einhverjar breytingar þarf að gera á íslenskri löggjöf til að hægt sé að taka upp þennan Árósasamning en á þeim mánuðum sem liðnir eru geri ég ráð fyrir að því starfi sé lokið og ég vænti því góðs af afgreiðslu þessarar þáltill.