Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 13:40:02 (1464)

2001-11-13 13:40:02# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), Flm. GÖ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Nú fyrir helgina varð talsverð umfjöllum í fjölmiðlum um ólöglegt erlent vinnuafl sem fannst í Kópavoginum. Í ljós hefur komið að þessir erlendu verkamenn hafa ekki haft tilskilin leyfi til að starfa hér á landi, þeir eru í útleigu á vegum undirverktaka. Ekki er þetta einungis spurning um leyfin, það er aðeins einn angi málsins, heldur líka hitt að verkafólkið virðist mjög svo undirborgað og greinilegt að hluti launanna fer til undirverktakans þannig að hér er fólk að vinna marga tíma á dag á sultarkjörum, eflaust undir því sem tíðkast í fjárhagsaðstoð. Kerfið virðist vera þetta: Undirverktaki leigir starfsfólkið út, sér því fyrir húsnæði, skammtar því laun sem leigutakinn greiðir útleigjandanum en ekki fólkinu sjálfu. Þá veltir maður fyrir sér hvort það nái 50% af þeim launum sem það á að fá. Þetta er háalvarlegt mál og getur ekki gengið.

Í dagblöðum kom jafnframt fram að þess eru mörg dæmi að fólk sé ekki sjúkratryggt og hafi ekki getað notið læknisaðstoðar ef slys ber að höndum. Í Morgunblaðinu 10. nóvember sl. er viðtal við Tryggva Marteinsson, fulltrúa hjá Eflingu, þar sem hann talar um vandamál sem geta komið upp þegar útlendingar hafa ekki atvinnuleyfi, og ræddi hann við einn atvinnurekanda í því sambandi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hann sagði mér að Pólverji sem væri í vinnu hér á landi hefði mölbrotið á sér andlitið í vinnuslysi en þyrði ekki til læknis vegna þess að hann væri án dvalar- og atvinnuleyfis. Þessum manni mun hafa verið það ljóst að hann væri ólöglegur og það þekkist vissulega líka, í bland við þá sem treysta atvinnurekandanum fyrir sínum málum og eru að vinna hér í góðri trú.``

Við þekkjum auðvitað dæmi þess að fólk sé flutt inn sem ferðamenn og vinni því hér neðan jarðar við ömurlegar aðstæður, og dæmin hafa líka sýnt að til eru útlendingar sem sinna hér nokkurs konar vinnumiðlun fyrir landa sína og taka háar greiðslur fyrir. Við þessu þarf auðvitað að skera upp herör. Hitt þekkist auðvitað líka, og frekar oftar, að útlendingar aðstoði landsmenn sína með góðum upplýsingum og stuðningi í nýju landi. Erum við kannski að koma að þeim tímamótum að atvinnuleyfin eigi ekki að vera í höndum vinnuveitenda sjálfra, og þar af leiðandi vinnuafl í forsjá hans, heldur skoða hugmyndir um miðlæga vinnumiðlun hérlendis með nánu samstarfi við vinnumiðlanir í öðrum löndum? Þá yrði tryggt að öll gögn væru réttum megin við strikið. Með slíku fyrirkomulagi færu allar ráðningar í gegnum vinnumiðlanir en ekki einstaka atvinnurekendur að austan, vestan eða sunnan. Þetta er eitt af því sem verðugt er að skoða og þá sérstaklega þegar svona mál koma upp svo ekki sé talað um að reyna að nýta tækifærið í tengslum við nýtt frv. um atvinnurétt útlendinga sem hæstv. félmrh. hefur nýverið mælt fyrir.

Það hefur hins vegar háð þessum málaflokki að hann skuli ekki vera allur á einni hendi. Í stað þess skiptist hann á milli tveggja ráðuneyta og ótal undirstofnana. Nú reynir á heildarsýnina.

Við skulum hafa í huga að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist hér á landi. Ég vil minna þingheim á mál sem kom upp í Gufunesi þar sem 10 eða 20 manns bjuggu í hreysi og fengu einungis greiddan helming launa sinna. Rætt hefur verið um að í hlut ætti sama undirverktakafyrirtæki og hér er um að ræða en slíkt er auðvitað verkefni lögreglu að skoða. Einnig má minna á að svipað mál kom hér upp fyrir tæpum þremur árum þegar hópur Tælendinga bjó við illan kost í Laugardalnum, og var hafður svipaður háttur á og í því máli sem hér um ræðir. Sennilega eru málin fleiri þó að fjölmiðlar hafi ekki endilega vitað um þau.

Þetta eru háalvarleg mál og við getum ekki verið þekkt fyrir að nýta okkur fátækt og eymd annarra með þessum hætti. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að leiðrétta það ranglæti sem þetta fólk verður fyrir, ganga frá atvinnu- og dvalarleyfum og tryggja því réttmæt laun meðan á dvöl þess stendur.

Virðulegur forseti. Því miður er það svo að þeir fáu atvinnurekendur sem haga sér með þessum hætti skaða að sjálfsögðu alla aðra en það er greinilega nauðsynlegt að vera vel á verði í þessum málum. Þetta er ekki aðeins spurning um undirboð á launum heldur eru aðstæður allar hinar ömurlegustu, margir hírast saman í herbergi með enga aðstöðu. Því miður vill það brenna við að sumir telji að þessi aðstaða sé boðleg fyrir útlendinga þó að við mundum aldrei bjóða okkur sjálfum upp á hana. Og þau rök hafa jafnvel verið notuð að aðstaða í heimalandi hafi verið lítið betri fyrir komuna til landsins og því skyldu þeir þá ekki gera sér þetta að góðu? Ég hélt hins vegar að oftast væri það svo að fólk væri að leita sér að vinnu í öðrum löndum til þess að komast í betri aðstæður en í heimalandi sínu og jafnvel reyna að leggja eitthvað af mörkum til fjölskyldna sinna sem áfram eru í heimalandinu. Ég hefði talið að slíkt væri frekar algengt en það er kannski misskilningur.

Að þessu framansögðu spyr ég hæstv. félmrh. eftirfarandi spurninga: Hversu mörg tilfelli hafa komið upp af þessum toga á síðustu árum? Hvaða úrræðum var beitt vegna þeirra mála og hvaða úrræðum getur ráðherrann nú beitt til þess að fyrirbyggja að svona lagað endurtaki sig? Hefur ráðherra í hyggju að koma með lagabreytingar til þess að bæta úr þessu? Og síðasta spurningin er þessi: Mun ráðherra beita sér fyrir lagabreytingum vegna þeirra sem hafa milligöngu í slíkum málum, og hvaða viðurlög sér hann vegna þeirra sem framleigja vinnuafl?