Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 13:57:05 (1469)

2001-11-13 13:57:05# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Í þessa sali berast nú þær fréttir að hafinn sé ólöglegur innflutningur á útlendingum sem eiga þau verkefni fyrir höndum að vinna án allra leyfa og það á launum sem eru undir lágmarkstöxtum. Það er greinilegt að heimurinn er að opnast til muna og menn fátækari ríkja eygja auknar líkur á því að komast til landa þar sem meiri velmegun ríkir og vonir eru um betra líf. Við slíkar aðstæður sjá ýmsir sér leik á borði og bjóða því fólki aðstoð við að flytjast frá fátækum og jafnvel hrjáðum heimahögum sínum. Boð þessi eru gjarnan gylliboð sem enginn fótur finnst fyrir heldur er verið að blekkja fólk sem býr við sára fátækt og óöryggi.

Herra forseti. Nánast í hverjum mánuði sjáum við í sjónvarpinu fréttir af fólki sem lendir í hinum mestu hremmingum þegar það er flutt í þessu skyni á milli landa. Það hefur jafnvel borið við að hópar manna hafa hreinlega látið lífið í slíkum flutningum sem enginn heiðarlegur maður mundi bjóða skepnum að þola. Sú hugsun sem þarna býr að baki er ekki kærleikur eða mannúð í garð þeirra sem láta glepjast og leggja í slíkar ferðir til landa fyrirheitanna. Nei, þvert á móti. Hér ræður græðgin ein ferðinni og það er alvarlegt mál ef atvinnurekendur taka vísvitandi þátt í slíku athæfi.

Við vitum að svört atvinnustarfsemi er stunduð hér í ríkum mæli en að sjá hér vísi að þrælastarfsemi er háalvarlegt mál og þeim til skammar sem taka þátt í því.

Herra forseti. Ég vona að hæstv. félmrh. muni sjá til þess að slík mál verði rannsökuð ofan í kjölinn og allt gert til að þvílík starfsemi sem hér um ræðir verði upprætt hið allra fyrsta.