Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 13:59:21 (1470)

2001-11-13 13:59:21# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Umræðan snýr að atvinnurekendum sem hafa orðið uppvísir að því að nýta sér bágar, efnahagslegar og félagslegar aðstæður útlendinga í heimalandi þeirra. Ekki liggur fyrir hversu margir atvinnurekendur taka þátt í þessu en hins vegar liggja fyrir upplýsingar um að um 600 útlendingar hafa fengið dvalarleyfi en eru án atvinnuleyfis og það hlýtur að vera vísbending um að um nokkurn hóp þeirra sé að ræða og þar með sé um að ræða nokkurn hóp útlendinga sem brotin eru á öll réttindi og kjarasamningar en þeir þurfa síðan í ofanálag að taka afleiðingunum og sæta brottrekstri úr landi að ógleymdum þeim aðbúnaði, húsnæði og öðrum aðstæðum sem þeim er gert að búa við meðan þeir dvelja hérna. Þessi mál eru okkur auðvitað til skammar.

Annars ágætt frv. sem hæstv. félmrh. hefur nú lagt fram í annað sinn, um atvinnuréttindi útlendinga, tekur að óbreyttu ekki skýrlega á brotum atvinnurekenda í slíkum tilvikum. Þar er einungis gert ráð fyrir afturköllun leyfis, m.a. vegna þess að rangar upplýsingar hafa verið veittar eða skilyrðum telst að öðru leyti ekki fullnægt.

Ég tel vert að huga að því að taka upp í það frv. skýrt ákvæði um að atvinnurekandi sem brýtur skylduna um atvinnuleyfi til handa útlendingi baki sér með því refsiábyrgð ef á að koma í veg fyrir að menn endurtaki þetta aftur og aftur. Einhverjir þeirra útlendinga sem hér starfa án tilskilanna atvinnuleyfa munu gera það í góðri trú og í fullu trausti á atvinnurekendum sínum en það leiðir aftur hugann að þeim algera skorti sem við búum við hvað varðar alla upplýsingagjöf til útlendinga um skyldur þeirra og réttindi, ekki bara skyldur þeirra og réttindi á vinnumarkaði heldur almennt um hvers konar félagslega þjónustu, tryggingamál og heilbrigðisþjónustu. En í þeim tilvikum sem útlendingur vinnur hér og hefur fengið dvalarleyfi ætti ekki að vera erfitt að tryggja fullnægjandi aðgang að slíkum upplýsingum en auðvitað er erfiðara við þetta allt saman að eiga þegar útlendingar eru fluttir inn sem ferðamenn til starfa svart.

Frv. um atvinnuréttindi útlendinga felur í sér mikla réttarbót og er löngu tímabært. Í einu ákvæðinu þar er tekið á því að unnið skuli að því að koma til útlendinga þeim upplýsingum sem þörf er á.