Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 14:10:42 (1475)

2001-11-13 14:10:42# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að það er ágæt samvinna milli Útlendingaeftirlitsins og Vinnumálastofnunar, og daglegt samband þar á milli þó að stofnanirnar heyri undir mismunandi ráðuneyti. Það kom til greina að færa þetta undir eitt ráðuneyti en dómsmrn. féllst ekki á þá hugmynd.

Upplýsingabæklingar um réttindi og skyldur eiga að vera erlendum starfsmönnum aðgengilegir á 10 tungumálum. Frv. um atvinnuréttindi útlendinga tekur einmitt á þessum málum og ég vil leyfa mér að lesa 17. og 18. gr., en 17. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Dæma má lögaðila jafnt sem einstaklinga til greiðslu sekta vegna brota á lögum þessum. Um refsiábyrgð lögaðila fer samkvæmt II. kafla A almennra hegningarlaga.

Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta opinberri meðferð.``

18. gr. hljóðar svo:

,,Hafi einhver hlutast til um að útlendingur, sem hefur verið synjað um atvinnuleyfi eða hefur ekki sótt um atvinnuleyfi, flytjist til landsins til að taka hann í þjónustu sína ber honum að sjá um heimflutning hans innan þess tíma sem Vinnumálastofnun tiltekur, ríkissjóði að kostnaðarlausu.``

Það verður að borga þessum starfsmönnum samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Við pössum að aðbúnaður sé fullnægjandi. Við höfum tvisvar sinnum beðið um lögreglurannsókn vegna þess að við urðum þess áskynja eða fengum grun um að útlendingar hefðu verið látnir borga stórfé til að láta útvega sér vinnu á Íslandi. Í hvorugt skiptið náði það fram að ganga eða viðkomandi starfsmenn guggnuðu á að vitna þegar til kastanna kom.

Stéttarfélögin fá ætíð upplýsingar um umsóknir þó að þau veiti ekki leyfin. Ég vona að hér sé um undantekningartilfelli að ræða. Atvinnurekandi ber ábyrgð á starfsmanni sem hann fær leyfi fyrir, og ef um refsivert athæfi er að ræða ber að taka á því af fullri hörku. Það er algerlega ólíðandi að láta menn komast upp með þá hluti sem eru að gerast í Kópavogi.