Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 14:13:56 (1476)

2001-11-13 14:13:56# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998. Þetta er mál 252 á þskj. 288.

Í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa um flugslys það sem varð í Skerjafirði í ágúst árið 2000 hófst víðtæk umræða hérlendis um flugöryggismál, stöðu þeirra og ástand. Ég lét fara mjög vandlega yfir þá gagnrýni sem fram kom á framkvæmd flugöryggismála og rannsókn flugslysa hér á landi í þeim tilgangi að draga lærdóm af og standa fyrir aðgerðum sem leitt geti til aukins flugöryggis, fækkunar slysa og aukins trausts almennings á flugi.

Ráðuneytið hefur nú þegar gripið til ýmissa aðgerða þar að lútandi. Má þar nefna stórauknar fjárveitingar til flugöryggismála, gildistöku svokallaðra JAR-reglna, sem eru sam-evrópskar reglur um flugrekstur fyrir minni flugvélar, og skipun starfshópa til þess að semja drög að reglugerð um flugvelli og endurskoða lög um rannsóknir flugslysa.

[14:15]

Efni frv. sem hér er til umræðu er víðtækt en hefur þau meginmarkmið að auka flugöryggi og flugvernd og tryggja að Flugmálastjórn hafi yfir að ráða nauðsynlegum úrræðum til að eftirlit hennar beri tilætlaðan árangur. Þá ýta nýleg hryðjuverk í fluginu undir að ákvæði laganna um flugvernd séu styrkt, auk þess sem með frv. er lagt til að lögfest verði ýmis ákvæði sem horfa til aukins öryggis almennings á jörðu niðri. Jafnframt var við samningu frv. höfð hliðsjón af úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar á stjórnun flugöryggismála á Íslandi.

Helstu nýmæli og breytingar frá gildandi loftferðalögum eru þessi:

Eftirlitsvald Flugmálastjórnar Íslands er aukið og aukin úrræði til handa stofnuninni við að knýja fram þær ákvarðanir í flugöryggismálum sem stofnunin telur nauðsynlegar í þágu aukins öryggis. Lagastoð er skotið undir lofthæfifyrirmæli og bein rekstrarfyrirmæli stofnunarinnar. Þá er henni veitt dagsektarvald og heimild til að leggja févíti á eftirlitsskylda aðila í líkingu við þær heimildir sem Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlit eru búnar á þeim vettvangi sem þær starfa á.

Með frv. er það nýmæli að flugvellir og flugstöðvar eru gerð leyfisskyld og sett undir opinbert eftirlit Flugmálastjórnar, flugöryggissviðs hennar.

Eins og ég gat um áðan skipaði ég starfshóp til að undirbúa reglugerð um flugvelli á Íslandi. Við það er miðað að sá sem vill hefja starfrækslu á flugvelli sæki um viðurkenningu á aðstöðu og búnaði vallarins til flugöryggissviðs Flugmálastjórnar. Sama á við um þá aðila sem í dag reka flugvelli. Þá er með ákvæðum um flugvernd áréttuð þátttaka okkar Íslendinga í átaki sem stendur yfir um allan heim í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum. Markmið flugverndar er að vernda flugsamgöngur gegn ólögmætum aðgerðum og tryggja öryggi farþega, áhafna og almennings.

Til að tryggja öryggi og samræmd vinnubrögð er nauðsynlegt að flugverndaráætlun fyrir Ísland í heild sinni verði hrint í framkvæmd og flugverndarráð sett á laggirnar. Er það í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar bæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, samtök flugmálastjórna í Evrópu, ECAC, og væntanlega reglugerð Evrópusambandsins.

Í síðustu viku boðaði ég til fundar þar sem kynntar voru væntanlegar áætlanir og aðgerðir sem lúta að flugvernd. Markmiðið var jafnframt að koma á samstarfi þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd þeirra mála og flugrekenda og afmarka hlutverk hvers og eins. Á fundinum voru kynnt drög að flugverndaráætlun fyrir Ísland en í fundarlok boðaði ég skipan starfshóps til þess að ljúka gerð flugverndaráætlunar. Verði frv. þetta að lögum sem hér er til meðferðar verður skipað sérstakt flugverndarráð og reglur um fyrirkomulag öryggisleitar á farþegum og öðrum sem fara inn á öryggissvæði svo og fyrirkomulag leitar í farmi og farangri og gegnumlýsingu hans. Þess má geta að Evrópusambandið hefur lagt á það mikla áherslu að ljúka sem fyrst setningu reglugerðar um flugvernd eftir atburðina 11. september sl. Reglugerðin verður væntanlega hluti af EES-samningnum og bindandi hér á landi.

Á undanförnum árum hafa nokkur tilvik komið upp þar sem farþegar sýna af sér ofstopafulla hegðun eða hegðun sem getur stofnað öryggi loftfars í hættu. Í ljósi þess er lagt til í frv. að lögfest verði ítarlegri ákvæði um viðurlög við slíkri hegðun.

Ríkisstjórnin samþykkti að leggja til niðurfellingu flugleiðsögugjalda, m.a. vegna bágrar afkomu innanlandsflugsins. Með frv. er fengin lagaheimild til þeirrar niðurfellingar.

Að lokum eru í frv. lögfestar ýmsar meginreglur í fluginu svo sem um hámarksaldur flugmanna sem hefur verið skipað með reglugerð til þessa. Frv. þetta er samið með það að markmiði að koma í veg fyrir slys og tryggja að öryggi í flugi sé ávallt sambærilegt við það sem best gerist. Verði það að lögum mun það án nokkurs vafa auka flugöryggi hér á landi.

Flugöryggismál eru og hafa verið mjög í umræðunni að undanförnu, eins og komið hefur fram fyrr í ræðu minni. Þær umræður og þeir atburðir í fluginu síðustu missiri minna okkur á að allir verða að líta í eigin barm um hvað megi betur fara, bæði flugrekendur, flugliðar og stjórnvöld.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.