Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:21:24 (1482)

2001-11-13 15:21:24# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins bara út af gjörbreyttri stöðu flugfélaga.

Ég er alveg sammála því, enda var eitt af mínum fyrstu verkum á hinu háa Alþingi þegar ég kom í þetta virðulega hús, umræða utan dagskrár um stöðu innanlandsflugs á Íslandi. Ég var innilega sammála því að þetta yrði boðið út. Ég gagnrýndi að það hefði ekki verið gert fyrr. Og ég var innilega sammála því og því fylgjandi að sjúkraflug og farþegaflug yrðu boðin út saman, eins og hæstv. ráðherra kom inn á um flugið til Hornafjarðar sem ég fagna að eigi að bjóða út og styrkja. Ég sakna þess reyndar að Húsavíkurflugið skuli ekki einnig vera haft með með tilliti til hagsmuna þess svæðis og með tilliti til ferðaþjónustu aðallega í Þingeyjarsýslu. En nóg um það.

Ég fagna þessu. Þetta er auðvitað gert til þess að þeir sem fá þennan pakka verði betur í stakk búnir, fái meiri og betri verkefni og geti hagað rekstri sínum eftir því, þ.e. geti betur sinnt áætlunarflugi í leiðinni. Það sem er mikilvægast er að auðvitað vonar maður að með þessu útboði komi aðilar til sem eru kannski í of litlum verkefnum en gætu tekið að sér meira. Ég nefni bara sem dæmi Íslandsflug, næststærsta innanlandsflugfélagið okkar á Íslandi. Auðvitað væri æskilegt að þeir fengju fleiri af þessum leggjum sem við erum að bjóða út, þ.e. farþega- og sjúkraflug, til þess að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækjanna, til þess að geta tekið þátt í að fljúga á öðrum leiðum og halda uppi samkeppni og samgöngum til nokkurra staða.

Herra forseti. Svo bara rétt í lokin. Það er alveg rétt að þetta var stillt upp á, að mig minnir, 80 millj. á ári. En það er líka rétt, og rétt að hafa í huga það sem við ræðum hér eftir nokkrar sekúndur, að mikil mistök hæstv. ríkisstjórnar með flugmiðaskattinum svokallaða hafa íþyngt þessum félögum. Og þar voru áætlaðar 50 millj. kr. í skattheimtu á þessu ári.