Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:23:35 (1483)

2001-11-13 15:23:35# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þarf alltaf að hafa allt sviðið undir þegar verið er að kveða upp dóma eins og hv. þm. gerir. Ég rakti hér að flugfélögin eiga að hafa allt aðra stöðu í dag eftir að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að bjóða út flugleiðir og styrkja þær, tilteknar leiðir. Það má heldur ekki gleyma því að þróun olíuverðs og annars hefur haft geysilega mikil áhrif á flugreksturinn. Málið er ekki einungis að innheimt var gjald af flugfélögunum, svokallað leiðarflugsgjald, sem er bara brot af þeim kostnaði sem ríkissjóður greiðir, sem verður til þess að flugfélögin rata í vanda. Það er annars vegar það að dregið hefur mjög úr notkun flugs á tilteknum flugleiðum á meðan reyndar sem betur fer, eins og til Akureyrar, hefur verið mikil notkun í fluginu.

Því þurfa menn að átta sig, eins og ég segi, á sviðinu öllu þegar verið er að kveða upp dóma bæði um stöðu flugsins og aðgerðir stjórnvalda.

Ég trúi ekki öðru en að þegar þingmaðurinn fer af sanngirni yfir þetta hljóti hann að vera býsna ánægður með aðgerðir ríkisstjórnarinnar þó hann vilji ekki viðurkenna það sem fulltrúi Samfylkingarinnar sem hefur allt á hornum sér í öllum málum og eru að nálgast Vinstri græna allt hvað af tekur, kannski vegna þess hversu Vinstri grænir hafa náð miklum árangri í því að vera á móti öllu, óánægðir með allt. En Samfylkingunni fer það illa. (JB: Mótmæli, mótmæli, herra forseti.)