Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:28:01 (1485)

2001-11-13 15:28:01# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til þess að koma hér upp til þess að fjalla aðeins um þau orð hæstv. ráðherra að hann ætti í svo miklum örðugleikum með að koma sínum málum fram vegna andstöðu Vinstri grænna því þeir væru svo á móti öllu því sem hann ... (Samgrh.: Það er misskilningur.) Nú kallar hæstv. ráðherra fram í og telur að um misskilning hafi verið að ræða og ég vona að það sé rétt.

Við höfum einmitt verið að leggja hæstv. ráðherra lið, færa hann til betri vegar, benda honum á hversu einkavæðingin í hans mikilvægu málaflokkum er afleit og slæm. Í því máli sem hæstv. ráðherra er nú hér að flytja varðandi flugmál lýsti hann því einmitt hvernig ríkið er í auknum mæli að koma inn til þess að styrkja flugið, styrkja innanlandsflugið. Það flug sem eftir er í landinu er því að verða í stórum mæli ríkisstyrkt og verður væntanlega ríkisstyrkt enn meir.

En hverju er hæstv. ráðherra þarna að sópa upp? Hann er að sópa upp verk fyrirrennara sinna í ráðherraembætti sem einkavæddu flugið, tóku af sérleyfin og gáfu frjálst skotleyfi á flug í landinu. Hvað fengum við? Við fengum það að tvö eða þrjú flugfélög flugu á sama stað, undirbuðu hvert annað og skertu þar með fjárhag sinn innan nokkurra mánaða. Innan nokkurra ára gat ekkert af þessum flugfélögum staðið lengur við þetta innanlandsflug. (Gripið fram í.) Þeir geta ekki flogið samtímis með öllum vélunum. Sami maðurinn getur ekki, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, flogið með öllum vélunum samtímis. Ég man að á flugvellinum á Sauðárkróki stóðu kannski samhliða flugvélar frá tveimur flugfélögum og áætlun þeirra var á sama tíma.

Þetta varð hvað erfiðast og sogaði til sín höfuðstól þessara flugfélaga og veitti þeim þó ekki af honum. (Gripið fram í.) Þessu er hæstv. ráðherra núna að sópa upp. Hann er sópa upp vanda fyrirrennara síns í samgrn., sópa upp vanda einkavæðingarinnar sem í raun í flestum tilfellum er aðeins fólgin í því að soga til sín skammtímagróða en skilja síðan vandamálin eftir þegar ekki er hægt að pumpa meira fjármagni út.

Ég óttast, herra forseti, að verði gengið enn harðar fram í einkavæðingu á fjarskiptaþjónustu, í samgöngumálum, almannaþjónustunni og almenningssamgöngunum í landinu þá megum við búast við því að stórir hlutar landsins verði án þessarar þjónustu eða búi við verulega skerta þjónustu.

Herra forseti. Ég frábið mér að Vinstri grænir séu hæstv. ráðherra sérstaklega óþægur ljár í þúfu. Við erum einmitt að reka þau erindi að færa mál hans til betri vegar og það munum við gera áfram af öllum okkar krafti eins og við getum með hag lands þjóðar að leiðarljósi.