Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:07:42 (1492)

2001-11-13 16:07:42# 127. lþ. 27.13 fundur 32. mál: #A loftferðir# (leiðarfluggjöld) frv., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þess sem hæstv. ráðherra sagði um þetta leiðarflugsgjald og hvenær það eigi að falla niður. Það er rétt að í umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn hafi verið innheimtar á árinu 2001 16 millj. kr. vegna gjaldsins. Því má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs hækki um 29 millj. kr. á árinu 2001 og 45 millj. kr. á árinu 2002, vegna niðurfellingarinnar.

Herra forseti. Ég held --- og það er þá bara allt í lagi ef það vantar inn í frv. --- að þetta gjald eigi samkvæmt frv. hæstv. ráðherra sem við vorum að ræða áðan að falla niður frá og með miðju ári. Ég vænti þess þá að við höfum stuðning fyrir því og allir verði sammála því í hv. samgn. að gera þá breytingu, þegar við höfum farið yfir það, að hætt verði að rukka þetta gjald frá miðju ári, helst frá 1. janúar sl. og gjaldið falli niður allt þetta ár. Ég vona að við það verði stuðningur en í frv. sem við ræddum áðan voru engin ákvæði um það. Að mínu mati, ég held að ég skilji það rétt, er ekki nægjanlegt að gjaldið falli niður frá miðju ári vegna þess að um það sé getið í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. En ég fagna því að sjálfsögðu, og það skal ekki standa á mér við það, að þetta verði tekið upp.

Mér fannst það hálfgerður útúrsnúningur hjá ráðherra áðan að ég hafi boðað að ég mundi leggjast gegn frv. sem við ræddum áðan. Ég sagði það ekki. Ég sagði hins vegar að það yrði ekki nein fljótaskrift á þeirri umræðu. Ég gagnrýndi það hve frv. kemur í raun seint fram en ég held að hv. samgn. muni fara mjög gaumgæfilega yfir það mál og taki sér þann tíma sem þar þarf. Ég er tilbúinn til að mæta á fleiri og lengri fundi ef það má verða til þess að þetta taki gildi. Hins vegar verður farið vel yfir þetta frv. og það þarf að fá margar umsagnir um það og marga í heimsókn til að ræða málið.