Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um aðbúnað skipverja

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:10:12 (1493)

2001-11-13 16:10:12# 127. lþ. 27.14 fundur 184. mál: #A samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um aðbúnað skipverja# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 191 hef ég lagt fram þáltill. um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um aðbúnað skipverja. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Árni Ragnar Árnason, Kristján Pálsson og Guðjón Arnar Kristjánsson. Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 163, um aðbúnað skipverja á hafi úti og í höfn.``

Í greinargerð kemur fram að árið 1936 samþykkti Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, tilmæli nr. 48. Þessi tilmæli varða velferð sjómanna í höfn. Á grundvelli þessara tilmæla var komið á fót sjómannaþjónustu víða um lönd. Norðurlöndin, önnur en Ísland, voru í fararbroddi, enda miklar siglingaþjóðir á alþjóðlegum mælikvarða. Síðastliðna hálfa öld hafa íslenskir sjómenn getað notið þjónustu slíkra velferðarstofnana, sjómannastofa, annars staðar á Norðurlöndum, á Bretlandi og í Þýskalandi. Hins vegar hefur Ísland ekki tekið þátt í þessari starfsemi. Ástæðan hefur einkum verið sú að á Íslandi hafa verið allt aðrar forsendur ríkjandi í þessum málum. Flutningar fóru að megni til fram með íslenskum skipum til og frá landinu og mjög sjaldgæft að íslensk skip væru í svokallaðri langfart, þ.e. siglingum hafna á milli erlendis um langan tíma.

Undanfarna þrjá áratugi hafa þessar forsendur verið að breytast. Stór flutningaskip flytja meginhluta allra fiskafurða á erlenda markaði. Stórflutningar í hráefnisinnflutningi, svo sem á hveiti og korni, súráli og málmblendi, fara að mestu fram með erlendum kaupskipum, en umfangsmestu breytingarnar hafa orðið í farþegaskipasiglingum. Um 15--20 þúsund starfandi sjómenn á skemmtiferðaskipum koma til hafnar á höfuðborgarsvæðinu á hverju ári. Þeim til viðbótar koma um 1.000 kaupskip til hafnar á höfuðborgarsvæðinu með að meðaltali um 10 manns í áhöfn. Fjöldi erlendra og innlendra fiskiskipa kemur til hafnar á höfuðborgarsvæðinu árlega með um 5.000 manns samtals í áhöfnum, en það er varlega áætlað. Þeir Íslendingar sem starfa um borð í þessum skipum búa ekki allir á höfuðborgarsvæðinu. Það er ljóst að á bilinu 25--30 þúsund sjómenn heimsækja höfuðborgarsvæðið á hverju ári.

Hinn 17. maí 2000 stofnuðu samtök sjómanna og þjóðkirkjan Sjómannaþjónustuna í Reykjavík og nágrenni. Að henni standa Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, sjómannadagsráð, Sjómannafélag Reykjavíkur, Vélstjórafélag Íslands og þjóðkirkjan. Sjómannaþjónustan í Reykjavík og nágrenni byrjaði á því að láta fara fram viðamikla könnun sumarið 2000 meðal erlendra sjómanna um borð í skipum í höfnum við Faxaflóa á þörf fyrir þjónustu við sjómenn á höfuðborgarsvæðinu og fól Gallup framkvæmd hennar. Um 85% þeirra sem svöruðu töldu brýna þörf á sjómannaþjónustu sem hér er um getið.

Sú sjómannaþjónusta, sem nú er veitt víða erlendis, byggist á samþykkt ILO. Sjómannaþjónustunni í Reykjavík standa nú til boða fjármunir úr alþjóðlegum velferðarsjóði sjómanna, allt að 98 millj. kr., til að koma þessari aðstöðu á fót hér á landi með öllum þeim búnaði sem til þarf. Rétt er að geta þess að nú þegar er hafið starf við að útbúa þessa sjómannastofu í húsnæði á Grandagarði. Þessi alþjóðlegi velferðarsjóður getur ekki tekið að sér daglegan rekstur slíkrar þjónustu. Sjómannasamtökin binda vonir við að ríkisstjórnin fullgildi ILO-samþykktina til að tryggja fjárhagslegan rekstur þessarar starfsemi á Íslandi. Inn í slíka starfsemi mundi að sjálfsögðu fléttast margvísleg þjónusta við íslenska sjómenn, enda er lögð rík áhersla á að um sé að ræða þjónustu við alla sjómenn, án tillits til þjóðernis.

Þjóðkirkjan hefur nú þegar stofnað embætti miðborgarprests sem ætlað er m.a. að sinna þjónustu við sjómenn og er það starf alfarið kostað af þjóðkirkjunni. Gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir þessa þjónustu í væntanlegri sjómannastofu, nái tillagan fram að ganga.

Fjármögnun þessarar þjónustu annars staðar á Norðurlöndum er með ýmsu sniði. Í Svíþjóð og Finnlandi er þessi þjónusta innifalin í hafnargjöldum en í Danmörku eru beinar fjárveitingar á fjárlögum. Hér á landi mætti athuga með greiðslu til þessa nauðsynjamáls með tilteknu hlutfalli af vörugjöldum. Um væri að ræða rekstrarkostnað sem gæti numið um 20 milljónum íslenskra króna á ári.

Herra forseti. Ég hef aðeins stiklað á stóru í greinargerðinni, enda er þetta í annað sinn sem þessi þáltill. er flutt. Ég legg til að eftir þessa umræðu verði málinu vísað til síðari umræðu og hv. félmn.