Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um aðbúnað skipverja

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:27:27 (1496)

2001-11-13 16:27:27# 127. lþ. 27.14 fundur 184. mál: #A samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um aðbúnað skipverja# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni og Kristjáni Pálssyni fyrir undirtektir við þetta mál. Aðeins vegna þeirra orða sem hér hafa fallið, m.a. um að aðeins 11 ríki hafi samþykkt ILO-samþykktina, þá er þess að geta að t.d. eru ekki talin upp ríki eins og Bretland og Þýskaland þar sem þó eru reknar sjómannastofur.

Norðmenn, Danir og Svíar hafa rekið sjómannastofur vítt og breitt um heiminn og m.a. er að finna slíkar sjómannastofur í Japan. Ég minnist þess sjálfur sem ungur maður siglandi í Karíbahafinu að á mörgum eyjum þar voru danskar og norskar sjómannastofur. Norðmenn, Danir og Svíar hafa því verið mjög ötulir við að reka sjómannastofur enda eru þetta miklar siglingaþjóðir, eins og fram kom í máli mínu áðan, og hafa hugsað vel um sjómenn sína.

Íslendingar hafa notið þar mjög mikillar gestrisni um áratuga skeið og þess vegna er ekki óeðlilegt, eins og hér hefur komið fram, að Íslendingar bjóði nú loksins upp á það sama og þessar þjóðir hafa gert hingað til.

Ég get alveg fallist á það sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson kom inn á varðandi hvernig ætti að finna tekjuhlið á slíkum rekstri sem er áætlað að kosti um 20 millj. á ári hvort sem það er í hafnargjöldum, vörugjöldum eða jafnvel með sérstökum skatti. Það er auðvitað mál sem þarf að leiða til lykta en má ekki verða til þess að tefja framgang málsins.

Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur veitt verulegt fjármagn í að koma slíkri sjómannastofu á og þegar öll sú frumvinna var unnin kom sérstök greinargerð frá Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu um það hvernig og hversu vel að þessu málum hafi verið staðið á Íslandi, með Gallupkönnun og þeim undirbúningi sem fram hafði farið. Alþjóðaflutningaverkamannasambandið ætlar t.d. að leggja til fólksflutningabíla, minibus-bíla, a.m.k. tvo, þannig að sjómenn verði sóttir af Reykjanesi og alveg upp á Akranes. Þessi þjónusta verður því mjög virk eins og hún er annars staðar í höfnum. Við höfum orðið varir við að aðilar frá sjómannastofum eða sjómannaheimilum, hvort sem það er kallað, hafa komið um langan veg til þess að sækja sjómenn og bjóða upp á það sem hér var komið inn á, þá þjónustu sem erlendir sjómenn hafa sérstaklega nefnt að þá vanhagi um þegar þeir koma í íslenskar hafnir.

Að lokum vona ég að þetta mál fái góða umfjöllun og verði svo fljótt sem verða má að lögum því að sjómannastofan er í undirbúningi og byggingu og væntanlega verður hún á vordögum tilbúin til þess að sinna hlutverki sínu. Það væri afleitt ef á því einu stæði að þátttaka íslenska ríkisins væri ekki klár varðandi málið, svo brýnt sem það er með tilliti til þess fjölda erlendra sjómanna sem kemur í íslenskar hafnir, eins og ég gat um áðan.