Hönnun og merkingar hjólreiðabrauta

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:31:56 (1497)

2001-11-13 16:31:56# 127. lþ. 27.15 fundur 248. mál: #A hönnun og merkingar hjólreiðabrauta# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um skipun nefndar um hönnun og merkingu hjólreiðabrauta. Flm. auk mín eru hv. þm. Katrín Fjeldsted, Jóhann Ársælsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Magnús Stefánsson, Ásta Möller, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján Pálsson, Einar Már Sigurðarson og Gunnar Birgisson, þ.e. öll umhvn. Alþingis. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að marka opinbera stefnu í málefnum hjólreiðamanna og stefnu um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta í þéttbýli og dreifbýli. Tekið verði tillit til hjólreiðamanna við hönnun nýrra mannvirkja og stefnt að því að hjólreiðar verði raunhæfur kostur í samgöngumálum á Íslandi.

Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. október 2002.``

Markmið þessarar tillögu er að vekja athygli á hjólreiðamönnum í umferðinni, en hjólreiðar eru ört vaxandi ferðamáti í umferðinni hér á landi. Markmið þessarar tillögu er einnig að auka öryggi og fækka slysum hjólandi vegfarenda.

Hjólreiðar eru vinsæl afþreying á Íslandi, sem og annars staðar. Hjólreiðafólki hefur fjölgað á Íslandi verulega á síðustu árum og nú eiga að líkindum tveir af hverjum þremur Íslendingum reiðhjól. Hjólreiðar eru ódýr og skemmtilegur ferðamáti og um leið heilsusamlegur og reyndar vinsæl fjölskylduíþrótt. Fjölmörg dæmi eru um að fólk í þéttbýli noti reiðhjól til þess að ferðast milli áfangastaða. Ef aðstæður væru betri væri þetta mun vinsælli og öruggari ferðamáti.

Hjólreiðar eru holl og góð íþróttagrein og hluti af daglegri líkamsrækt hjá mörgum. Hjólreiðar eru einnig vinsæll ferðamáti barna og unglinga. Það er í raun löngu tímabært að móta opinbera stefnu í þessum málum. Nú á tímum tölum við gjarnan um heilsutengda ferðaþjónustu en hjólreiðar eru einmitt hluti af henni. Íslendingar sem og útlendingar ferðast um landið yfir sumartímann á reiðhjólum, og það er t.d. mikil umferð erlendra ferðamanna á milli Leifsstöðvar og höfuðborgarsvæðisins og einnig frá Seyðisfirði. Aðstæður hjólreiðafólks á Íslandi eru bágbornar og lítið sem ekkert tillit tekið til hjólreiðafólks í umferðinni. Þess vegna er oft beinlínis hættulegt að ferðast um á reiðhjólum á Íslandi.

Hin fjölfarna þjóðleið frá Hafnarfirði um Garðabæ, Kópavog, Reykjavík og Mosfellsbæ er stórhættuleg hjólreiðafólki sem og gangandi vegfarendum. Hér er auðvitað brýnt að gera úrbætur á. Talið er að um 16.000 reiðhjól hafi verið flutt inn árlega síðustu 11 árin eða um 176.000 reiðhjól auk þeirra sem til voru. Það er talið að um 66% þjóðarinnar eigi reiðhjól eða tveir af hverjum þremur landsmönnum.

Það er í raun mismunandi hjólreiðamenning á Íslandi, en margir þéttbýliskjarnar eru tilvaldir fyrir hjólreiðamenn. Þar má nefna bæi eins og Akranes, bæi og þéttbýliskjarna á Suðurlandi, eins og Selfoss, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri, Hellu, Hvolsvöll, Vík, Kirkjubæjarklaustur, Höfn í Hornafirði og fleiri bæi mætti nefna. Hjólreiðamenn eru kröftugir og dugmiklir. Í haust gekk ég yfir Fimmvörðuháls og þá mætti ég af þar, af öllum stöðum, tíu duglegum hjólreiðamönnum sem voru að hjóla yfir hálsinn. Það er nú reyndar ekki fyrir hvern sem er, en sýnir í raun hvað hjólreiðar eru að verða vinsæl íþróttagrein á Íslandi.

Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir þessum ferðamáta við hönnun nýrra mannvirkja enda eru hjólreiðar hluti af nútímaafþreyingu og sumarleyfisferðum margra.

Æskilegt væri að í nefndinni sem við gerum tillögu um í þessari þáltill. sætu fulltrúar frá Vegagerðinni, fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá Landssambandi hjólreiðamanna, frá Fjallahjólaklúbbi Íslands og Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

Í Reykjavík var starfrækt sérstök hjólreiðanefnd sem skilaði ítarlegum tillögum til borgarráðs árið 1994, auk þess sem gengið var í samtök sem heita ,,Car Free Cities``, en allt of lítið hefur verið unnið með þessar tillögur.

Athyglisverðar tilraunir hafa verið gerðar um aukna notkun reiðhjóla á Árborgarsvæðinu þar sem almenningi hefur verið boðið upp á reiðhjól til að hjóla á milli staða og síðan er skipst á. Þetta er algeng leið í mörgum stórborgum og ég vil hvetja til þess að fleiri reyni einhverjar leiðir í þessa veru.

Þá hefur oft og tíðum verið efnt til skemmtilegra hjólreiðakeppna. Ég minni á eina sem kölluð var Tour de Hvolsvöllur og kröftugustu hjólreiðamennirnir hjóluðu á milli Reykjavíkur og Hvolsvallar á tveimur klukkutímum og 38 mínútum, sem er ótrúlega vel af sér vikið. Þessi leið er um 110 km.

Danir eru miklir hjólreiðamenn. Það er gaman að fylgjast með umferð hjólreiðamanna t.d. í Kaupmannahöfn og því hvernig Danir nota reiðhjólið sem samgöngutæki. Á Borgundarhólmi er hjólreiðaparadís. Á Borgunarhólmi voru í eina tíða stundaðar miklar fiskveiðar en þegar dró úr fiskveiðum í Eystrasalti breytti danska ferðamálaráðið eyjunni í raun í hjólreiðaparadís. Þar búa um 50 þúsund manns og ferðaþjónustan yfir sumartímann byggist fyrst og fremst á hjólreiðamönnum sem koma víðs vegar að úr heiminum til þess að hjóla um eyjuna.

Það er deginum ljósara að eftir því sem aðstæður hjólreiðamanna batna hvetur það Íslendinga til að nýta sér þennan skemmtilega og holla ferðamáta. Ég vil líka hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að setja upp sérstök hjólreiðastatíf. Það eru t.d. engin hjólreiðastatíf við Alþingishúsið. Fjölmargir starfa á Alþingi og meðal þeirra er einn og einn galvaskur hjólreiðamaður, m.a. sá sem gekk í salinn núna, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en hann var einn af flutningsmönnum þessari þáltill. á síðasta þingi. En af því að hann er ekki lengur í umhvn. þá bauðst honum ekki --- fyrir klaufaskap --- að skrifa upp á þessa þáltill. Ég bið hv. þm. afsökunar á því. Ég veit að hann, herra forseti, er mikill áhugamaður um þetta mál.

Að lokinni umræðu mælist ég til þess að samþykkt verði að senda þáltill. til samgn. til nánari umfjöllunar og afgreiðslu.