Hönnun og merkingar hjólreiðabrauta

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:51:53 (1500)

2001-11-13 16:51:53# 127. lþ. 27.15 fundur 248. mál: #A hönnun og merkingar hjólreiðabrauta# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta er hið besta mál og vonandi mun hún ná fram að ganga á hinu háa Alþingi.

Í greinargerð með tillögunni er minnst á mikilvægi hjólreiða í samgöngumálunum, þ.e. að hjólreiðar eru bæði vistvænn og öflugur samgöngumáti og því nauðsynlegt að þessi samgönguleið fái eðlilegan sess í uppbyggingu vegakerfisins, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Auk þess er nauðsynlegt, eins og kemur fram í greinargerðinni og lögð er áhersla á, að þjónusta og aðbúnaður gagnvart hjólreiðarfólki sé góður og hvarvetna fyrir hendi þar sem nauðsynlegt er. Á það skortir að þessi mál séu í eðlilegum og föstum skorðum.

Ég vil t.d. benda á hvernig samgöngubætur skerða í raun möguleika hjólreiðafólks. Ef við tökum Hvalfjarðargöngin sem dæmi þá er bannað að hjóla í gegnum Hvalfjarðargöngin en fyrir fólk sem er að ferðast á hjóli er afleitt að geta ekki nýtt sér þessa samgöngubót. Þarna þyrftu að mínu viti að vera möguleikar á að ferja hjólreiðafólk í gegnum þessi göng í staðinn fyrir að hjólreiðafólk sé nauðbeygt til að hjóla fyrir allan Hvalfjörð til þess að komast áfram vestur, þó að sú leið sé í sjálfu sér falleg og góð.

Við sem ökum mikið þjóðvegina gerum okkur grein fyrir þeirri stöðu sem hjólreiðarmaðurinn er í á vegum landsins, að vera þar staddur á milli þessara stóru flutningabíla sem fara með gríðarlegum hraða og miklu sogi eftir þjóðvegunum og síðan koma aðrir á móti. Þá er orðið lítið pláss fyrir hjólreiðarmann á aðalsamgönguæðunum þannig að það ber virkilega nauðsyn til að gera úttekt á þessum málum og móta heildarstefnu.

Hins vegar, herra forseti, er rétt að geta þess sem hefur áunnist á hinu háa Alþingi. Á 125. löggjafarþingi, 1999--2000, fluttu hv. þm. Þuríður Backman og Jón Kristjánsson frv. til laga um breytingu á vegalögum, með síðari breytingum. Það snerist um að bæði göngustígar og hjólreiðastígar yrðu lögboðnir hlutar af hinu almenna samgöngukerfi. Þá var sérstaklega vakin athygli á að bæði göngu- og hjólreiðastígar eru mikilvægir, t.d. fyrir börn og unglinga á leiðinni milli heimilis og skóla eða þegar þau nota hjól til að fara milli staða. En til þessa er lítið tillit tekið.

Afdrif þessarar tillögu hv. þm. Þuríðar Backman og Jóns Kristjánssonar urðu að á 125. löggjafarþingi árið 2000 var samþykkt brtt. á vegalögum þar sem hjólreiðastígar og göngustígar eru teknir inn sem formlegur hluti af hinu almenna vegakerfi sem bæði opinberir aðilar og félagasamtök geta komið að með að styrkja. Þessir stígar eru orðinn lögformlegur hluti hins opinbera samgöngukerfis og ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að farið sé að þeim lögum, bæði hvað varðar skipulag, lagningu stíga og kostnað eftir því sem við á. Þetta hefur áunnist þó að enn skorti á að þessu sé fylgt eftir bæði með skipulagi og fjármagni. Einnig þarf að móta stefnu sem hvetur til notkunar reiðhjóla og öryggis þeirra sem ferðast á reiðhjólum.

Mér þótti rétt, herra forseti, að geta þess sem þó hefur áunnist í samgn. varðandi þetta mál og fagna því að þessi tillaga, um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðarbrauta, til þess að fylgja þessu máli enn frekar eftir, komi fram. Ég tek undir orð hv. flm. sem hér hafa óskað þess að tillagan fái brautargengi og við getum styrkt hjólreiðar landsmanna, öryggi hjólreiðarmanna og það að fleiri geti ferðast öruggir á reiðhjóli um landið.