Matvælaeftirlit

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 13:42:32 (1506)

2001-11-14 13:42:32# 127. lþ. 29.1 fundur 152. mál: #A matvælaeftirlit# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Í skýrslu sem dr. Vilhjálmur Rafnsson og dr. Ólafur Oddgeirsson unnu að beiðni landbrn., sjútvrn. og umhvrn. á sl. ári og lögð var fram í mars sl. var fjallað um áhættuna á kúariðu á Íslandi og kom þar m.a. fram hörð gagnrýni á skipulag matvælaeftirlits á Íslandi, þ.e. bæði innflutningseftirlit og almennt eftirlit með matvælum á Íslandi, en slíkt eftirlit ætti við eðlilegar aðstæður að koma í veg fyrir að matvæli sem innihalda smitefni komist á borð neytenda.

Matvælaeftirlit er mikilvægt og alþýða manna í nágrannalöndum okkar tekur þau mál mjög alvarlega og vekur t.d. athygli sá þungi sem er á slíkum málum innan norræna samstarfsins. Nauðsyn bætts eftirlits með matvælum komst eftirminnilega inn í umræðuna í tengslum við hættulega dýrasjúkdóma, svo sem kampýlóbakter og salmonellu sem virðast verða orðnir landlægir á Íslandi og valda hættulegum sjúkdómum í fólki, ekki síst þó vegna enn þá hættulegri sýkinga sem geisuðu í Evrópu á sl. vori. Almennur ótti greip þá um sig hér á landi sem og í öðrum löndum um að e.t.v. væru varnir okkar gegn slíkri vá ekki nægilega markvissar. Ekki hefur dregið úr ógninni vegna þeirra hryðjuverka sem margir telja vofa yfir í okkar heimshluta.

Undir þessar áhyggjur taka skýrsluhöfundar og telja að það fyrirkomulag að matvælaeftirlit heyri undir þrjú ráðuneyti, í raun fjögur, auk sveitarfélaga sé ekki best fallið til að þjóna tilgangi matvælaeftirlits. Ástæðurnar séu einkum af pólitískum og sögulegum toga. Þeir telja að matvælaeftirlitið þurfi að ná til allra þátta framleiðsluferilsins hvort sem um er að ræða aðbúnað, fóður, vatn, kynbætur eða dýravernd, eftirlit með slátrun og framleiðslu afurða og eftirlit með vörunum þegar þær koma á markað. Dýraheilbrigði og matvælaeftirlit séu tveir óaðskiljanlegir þættir af einni heild.

Nú hefur komið fram að það sé á stefnuskrá hæstv. ríkisstjórnar að koma öllu matvælaeftirliti undir eitt ráðuneyti. Málið er mjög brýnt að ég tel og því spyr ég:

Hvað líður þeim áformum hæstv. ríkisstjórnar að koma öllu matvælaeftirliti undir eina stofnun? Undir hvaða ráðuneyti mundi slík stofnun heyra?