Matvælaeftirlit

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 13:48:49 (1508)

2001-11-14 13:48:49# 127. lþ. 29.1 fundur 152. mál: #A matvælaeftirlit# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir skýr og góð svör við spurningum mínum. Það er ljóst að í hvítri bók Evrópubandalagsins sem kom út fyrir nokkrum árum er lögð mikil áhersla á að þetta skref sé stigið í löndum Evrópubandalagsins. Ég býst við að við heyrum undir þá kategoríu með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég fagna því að þetta mál skuli þó komið á þennan rekspöl hér á landi sem reyndin er, eftir því sem hæstv. forsrh. segir.

Danir hafa stigið þetta skref til fulls. Í fyrsta lagi hafa þeir fært allt matvælaeftirlit sem áður var á höndum sveitarfélaga yfir til ríkisins Einnig hafa þeir stofnað sérstakt ráðuneyti í kringum matvælaeftirlitið, Ministeriet for Fødevarer, Landbrug og Fiskeri. Ég verð að segja að mér líst ekkert síður á það heldur en fara að færa þetta undir sjútvrn. Þó er svo sem ekki endanlega frá gengið þó hæstv. ráðherra kæmi með þá uppástungu.

Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli fyrir markaðssetningu íslenskra afurða í framtíðinni að þessi mál verði í lagi hjá okkur þannig að það veki traust að þær vörur sem við erum að flytja út hafi sætt íslensku matvælaeftirliti. Ég held að það muni skipta miklu máli fyrir okkur í framtíðinni og meira máli á erlendum mörkuðum en það hefur gert hingað til.