Farþegaflutningar til og frá Íslandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 13:54:30 (1510)

2001-11-14 13:54:30# 127. lþ. 29.3 fundur 181. mál: #A farþegaflutningar til og frá Íslandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn en hún varðar reglulegar skipaferðir allan ársins hring fyrir ferðamenn til og frá landinu. Rétt er að fara nokkrum orðum um þá aðstöðu sem til staðar er hjá okkur. Margar hafnir landsins bjóða upp á þá möguleika að taka á móti farþegaskipum. Þó vantar vafalítið eitthvað upp á sérbúnað til að taka á móti farþegum. Slík aðstaða fer að sjálfsögðu eftir tegund og búnaði skips í hverju tilviki en auðvitað skiptir mjög miklu máli að góð aðstaða sé til þess að taka á móti farþegum.

Aðstaða til að taka á móti bíla- og farþegaferjum er til í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn og í undirbúningi er að byggja nýja aðstöðu fyrir stórar farþegaferjur á Seyðisfirði. Allur þessi búnaður er auðvitað mjög sérhæfður, aðallega til móttöku á bílaferjum og auðvitað þarf í hverju tilviki fyrir sig að taka tillit til þeirra skipa sem eru á ferðinni.

Markaður fyrir siglingar farþegaskips til og frá landinu allt árið virðist ekki mikill samhliða því mikla framboði sem er á flugsamgöngum til og frá landinu. Þar er auðvitað aðallega um að ræða þjónustu Flugleiða sem heldur uppi mikilli, góðri og tíðri þjónustu sem vafalaust hefur þarna áhrif.

Það er kannski rétt að rifja upp hvernig skipaferðum er háttað til landsins. Fyrst ber þar að telja, eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, skipafélagið Smyril-Line siglir frá Evrópu til Íslands júní, júlí og ágúst árlega og hefur gert það sl. 27 ár. Það er út af fyrir sig mjög mikilvæg og merkileg starfsemi. Þeir sem að því standa eiga þakkir skildar fyrir að standa að þeirri þjónustu.

Sumarið 2003 mun félagið taka í notkun mun stærra skip til að sinna þessum flutningum og freista þess að lengja tímabilið sem siglt er á hverju ári. Hingað til hefur ekki verið sú eftirspurn utan þessara þriggja mánaða að mögulegt væri að mati skipafélagsins að halda þessum siglingum uppi lengri tíma á árinu.

Hjá skipafélaginu Eimskip hf. hefur ferðamönnum staðið til boða að ferðast milli meginlanda Evrópu og Íslands allt árið með einu eða tveimur skipum eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. En á svipaðan hátt og hjá Smyril-Line hefur eftirspurnin verið bundin fyrst og fremst við sumarmánuðina. Á það bæði við um innlenda og erlenda ferðamenn en þessar ferðir eru seldar á Íslandi og sérstaklega í Þýskalandi.

Þegar spurt er hvort samgrh. telji nauðsynlegt að boðið sé upp á reglulegar skipaferðir allan ársins hring fyrir ferðamenn til og frá landinu má svara á þann hátt að auðvitað væri æskilegt að í boði væru sem fjölbreyttastir ferðamöguleikar til landsins allt árið til þess að skapa enn frekari forsendur til uppbyggingar ferðaþjónustunnar. Á hitt er hins vegar að líta að þau fyrirtæki sem halda uppi umræddum ferðum hljóta að gera það í samræmi við eftirspurn. Því miður er ekki að sjá að hún sé næg til að slíkum ferðum sé haldið uppi allt árið. Þau skipafélög sem bjóða ferðamönnum þessar ferðir hafa ekki, í ljósi eftirspurnar, talið forsendur til þess að lengja það tímabil sem siglt er svo nokkru nemi.

Ekki er vitað til þess, alla vega liggur ekkert fyrir um það í ráðuneytinu, að uppi séu áform um að auka þessa þjónustu. Ég held að það þurfi auðvitað að gæta sín á því að efna ekki til slíks framboðs nema rökstuddar áætlanir liggi fyrir um að eftirspurn sé eftir siglingum allan ársins hring.

Ég endurtek hins vegar að auðvitað er gagnlegt að skoða þetta og þeim mun fleiri kostir sem gefast á flutningum, þeim mun fleiri möguleikar eru á að auka ferðamannastraum til landsins.