Lagning ljósleiðara

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:20:34 (1522)

2001-11-14 14:20:34# 127. lþ. 29.4 fundur 249. mál: #A lagning ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þessi mikla fjarskiptabylting sem hefur átt sér stað og glögglega kom fram í máli hæstv. ráðherra hefur breytt gríðarlega miklu varðandi uppbyggingu fjarskiptaþjónustu vítt og breitt um landið.

Það skiptir miklu máli í þessu sambandi að vekja athygli á því sem er staðreynd og kemur fram í hinum nýju fjarskiptalögum, því sem kallað hefur verið reikisamningar, þ.e. möguleikar ólíkra fyrirtækja til að hafa aðgang að grunnneti Landssímans, sem gerir það að verkum að hægt er að efna til mikillar samkeppni á nánast öllum sviðum fjarskiptaþjónustu innan grunnnetsins.

Þess vegna vekur það mikla furðu að ýmis fjarskiptafyrirtæki skuli hafa kosið að leggja í mikla fjárfestingu í grunnnetinu þrátt fyrir möguleika á þessu aðgengi. Það er enginn vafi á því að til lengri tíma er litið er þetta óhagkvæmt og mun auðvitað leiða til hærri verðlagningar. Þetta var reynsla sem Bretar gengu í gegnum. Að vísu var ekki til staðar á þeim tíma sú lagaheimild sem við höfum leitt í lög. Við höfum með þessum hætti auðvitað verið að ýta undir þessa samkeppni og möguleikann á því að lækka verð fyrir þessa þjónustu eins og hefur verið að gerast á undanförnum árum.