Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:33:06 (1527)

2001-11-14 14:33:06# 127. lþ. 29.8 fundur 222. mál: #A fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa fyrirspurn sem hv. þm. Árni Ragnar Árnason hefur varpað fram og þau góðu svör sem hæstv. ráðherra hefur gefið honum.

Það kemur í ljós að milli 20 og 25% af fjárveitingum til heilbrigðismála fara til einkaaðila þannig að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er í raun og veru töluverður hér á landi, allt upp í 94% í endurhæfingargeiranum.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp til að draga athyglina að þessu er að af þeirri umræðu sem hefur verið í þinginu um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu mætti ráða að hann sé af hinu vonda. En ég tel að það sé öðru nær. Í þeim upplýsingum sem við fáum hér frá ráðherranum nefnir hann hinar mestu fyrirmyndarstofnanir sem fólki eru að góðu kunnar, sem fólki er kunnugt að veita verulega góða þjónustu, þar á meðal Reykjalund, Heilsugæsluna í Lágmúla, öldrunarstofnanir og áfram má telja.