Offituvandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:39:27 (1530)

2001-11-14 14:39:27# 127. lþ. 29.9 fundur 257. mál: #A offituvandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SoG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Soffía Gísladóttir):

Herra forseti. Rannsóknir sýna að Íslendingar þyngjast stöðugt og vandamál sem tengjast offitu aukast með ári hverju. Afleiðingar offitu eru alvarlegar. Þar má m.a. nefna háa blóðfitu, háþrýsting, sykursýki, kransæðasjúkdóma, slit á stoðkerfi, svo sem hnjám, ökklum, mjöðmum og hrygg, og síðast en ekki síst félagslega einangrun.

Árið 1999 skoðaði Brynhildur Briem breytingar á hæð og þyngd níu ára skólabarna í Reykjavík á tímabilinu 1938--1998. Í ljós kom að meðalhæð barnanna hefur hækkað um fimm sentimetra á þessu tímabili og líkamsþyngdarstuðull þeirra hefur að sama skapi hækkað. En ef þyngdaraukningin væri í samræmi við hækkunina hefði líkamsþyngdarstuðullinn ekki átt að breytast. Miðað við þessa stuðla hefur ofþyngd stúlkna aukist úr því að vera 3,1% hópsins árið 1938 upp í 19,7% árið 1998. Hlutfall of þungra drengja hefur aukist úr 0,7% árið 1938 í 17,9% á þessu sama tímabili. Ef skoðaðir eru þeir sem haldnir voru offitu þá fara tölurnar fyrir báða hópana úr nánast engu árið 1938 upp í tæplega 5%. Börnin eru því greinilega að þyngjast og það verulega.

Herra forseti. Hvernig er ástandið hjá fullorðna fólkinu? Svipuð þróun hefur átt sér stað meðal fullorðinna og barna, en svo sýnir rannsókn á 45--64 ára gömlum Reykvíkingum sem Hólmfríður Þorgeirsdóttir gerði árið 1999. Rannsóknin byggðist á gögnum Hjartaverndar og náði til tímabilsins 1975--1994. Niðurstöðurnar sýna að bæði karlar og konur á Íslandi hafa hækkað að meðaltali um 2--3 sentimetra á tímabilinu en einstaklingar hafa einnig þyngst, konurnar um 7,3 kíló að meðaltali en karlarnir um 6 kíló. Eins og hjá börnunum er þyngdaraukningin meiri en svo að útskýrt verði með aukinni hæð.

En hvar eru þessir of feitu einstaklingar? Samkvæmt niðurstöðutölu þessara rannsókna ættu fimm af hverjum hundrað börnum að þjást af offitu og fimmti hver fullorðinn á aldrinum 45--64 ára þjáist orðið af offitu á Íslandi. Eina svarið við þessari spurningu er að flestir þeirra eru í felum. Börnin fela sig að vísu ekki vegna skólaskyldu. Og því eru æ fleiri fyrirspurnir sem berast til barnaverndaryfirvalda um hvað sé mögulegt að gera vegna offitu barna. Þetta vandamál minnir á vanda fatlaðra einstaklinga fyrir áratugum síðan en mikið hefur áunnist í baráttunni fyrir fatlaða og stuðningur við einstaklinginn er viðurkenndur strax og fötlunin er ljós. Nauðsynlegt er að byggja upp viðlíka kerfi fyrir of feita einstaklinga og virkja verður kerfið til þess að það taki strax á vanda einstaklingsins þegar offita er orðin augljós, en slíkt er mögulegt með alþjóðlegum stöðlum.

Ég spyr því hæstv. heilbrrh.:

Hefur verið gerð úttekt á vanda of feitra Íslendinga, sem eiga erfitt með að taka þátt í daglegu lífi og eru margir í felum, og eru uppi áform um að bregðast við alvarlegum vanda þeirra með öflugu stuðningskerfi?