Offituvandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:42:44 (1531)

2001-11-14 14:42:44# 127. lþ. 29.9 fundur 257. mál: #A offituvandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Hv. þm. beinir til mín fyrirspurn um vanda of feitra Íslendinga.

Ég tel að með fyrirspurninni sé vakin athygli á mjög mikilvægum þætti sem, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, hefur að miklu leyti verið dulin en að líkindum hefur hann farið vaxandi undanfarin ár og áratugi.

Fyrr í haust birtist grein í Læknablaðinu þar sem greint var frá könnun á því hvort breytingar hafi orðið hlutfallslega á fjölda of þungra og feitra hér á landi undanfarin ár. Þar var notaður líkamsþyngdarstuðull og miðað við mörk og skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fyrir þá sem teljast of þungir. Líkamsstuðull var 25--29,9, of feitir líkamsstuðull 30 eða hærri. Rannsóknin leiddi í ljós að hlutfall of feitra kvenna meira en tvöfaldast á tímabilinu 1975--1994, mest í hópi 55--64 ára kvenna þar sem um 25% töldust of feitar. Hjá körlum tæplega tvöfaldaðist hlutfall of feitra ungra karla, en aukningin var ekki marktæk í hópi þeirra eldri.

Ekki hefur verið gerð könnun hjá þeim sem eiga við illvíga offitu að stríða, þ.e. þegar líkamsþyngdarstuðull er kominn yfir 35. Fjöldi þeirra er því ekki vel þekktur enda hætta á því að þeir dragi sig að verulegu leyti í hlé. Oft er félagsleg staða þessara einstaklinga mjög erfið og samskipti við aðra takmörkuð.

Athygli heilbrigðisyfirvalda víða um heim hefur í vaxandi mæli beinst að átröskunum af ýmsum toga. Mikilvægi forvarna er augljóst og hefur því mikil áhersla verið lögð á upplýsingar um ýmsa þætti manneldismála, rétt fæðuval, hreyfingu og fleira. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem Alþingi samþykkti í maí síðastliðnum, er lögð áhersla á þessa þætti.

Þeir aðilar sem helst komast í kynni við þá einstaklinga sem eiga við mestan vanda af þessu tagi að stríða eru starfsmenn heilsugæslunnar og félagsþjónustunnar. Er því mikilvægt að þessar stofnanir bregðist við þegar þessa vanda verður vart og eigi úrræði til að grípa til. Næringarráðgjöf er veitt á ýmsum heilsugæslustöðvum en mjög líklegt er að þessir einstaklingar hafi samband við þær vegna líkamlegra og félagslegra vandamála.

Aðrar heilbrigðisstofnanir, svo sem Reykjalundur og Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, hafa lagt sérstaka áherslu á meðferð við offitu og hefur hún reynst vel. Auk þessa eru ýmis félagasamtök og einstalingar sem hafa beitt sér af mikilli alvöru í máli þessu. Má í því sambandi nefna OA-samtökin og myndarlega heimasíðu þeirra. Heilbrigðisyfirvöldum er ljós vandi þessa fólks og við munum leitast við að styðja þau úrræði sem best teljast á hverjum tíma.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi tel ég að hér hafi verið vakið máls á mjög mikilvægu máli. Ég vona að þessari spurningu hafi verið svarað að einhverju leyti.