Offituvandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:47:23 (1533)

2001-11-14 14:47:23# 127. lþ. 29.9 fundur 257. mál: #A offituvandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Soffíu Gísladóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli en ofþyngd og offita er orðið afar mikið og vaxandi vandamál hér á landi eins og í hinum vestræna heimi. Í kjölfarið fylgja margir fylgikvillar og nauðsynlegt að bregðast við þeim vanda með öflugu stuðningskerfi og forvörnum.

Mjög athyglisvert er að 39% karla og 34% kvenna eru of þung og ástandið er svo slæmt að sumir vilja líkja því við faraldur.

En yfirleitt eru það börnin sem fara verst út úr þessu því þau verða fyrir einelti og stríðni ef þau eru of feit og geta lent í miklum vanda. Þetta er mikið neysluvandamál. Það kom t.d. fram í neyslukönnun að sykurneysla og gosdrykkjaneysla íslenskra barna er afar mikil. Það er allt að hálfur lítri á dag sem börnin eru að drekka og það er allt of mikið, herra forseti.