Offituvandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:49:53 (1535)

2001-11-14 14:49:53# 127. lþ. 29.9 fundur 257. mál: #A offituvandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SI
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er um afar mikilvægt mál að ræða því offituvandi hér á landi sem og í öðrum vestrænum ríkjum er orðinn verulegur og er stöðugt að aukast. Bæði kemur þar til breytt mataræði og minni hreyfing.

Offituvandi meðal barna er mjög alvarlegur og nauðsynlegt er að hjálpa þeim einstaklingum sem þar eiga í hlut en ég vil benda á í því sambandi að ekki er nóg að taka á vandanum með þeim einstaklingum sem þar eiga hlut að máli t.d. í skólum eða í öðrum stofnunum, heldur verður einnig að fylgja fræðsla til foreldra eða forráðamanna, því þeir krakkar sem hér um ræðir eru á grunnskólaaldri og eru ekki með fjárráð og því er mataræði þeirra eingöngu byggt á því sem heimilin hafa upp á að bjóða. Fræðsla og aðhald verður því einnig að fylgja til foreldranna þegar kemur að þessum málum.