Offituvandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:51:02 (1536)

2001-11-14 14:51:02# 127. lþ. 29.9 fundur 257. mál: #A offituvandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SoG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Soffía Gísladóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir greinargóð svör og þakka kærlega fyrir viðbrögð hv. alþm. varðandi fyrirspurnina.

Hér er um mikið vandamál að ræða og greinilegt er að ofþyngd og offita eru vaxandi vandamál, bæði meðal barna og fullorðinna hér á landi og mikilvægt að grípa í taumana og spyrna við þeirri þróun.

Ég velti því fyrir mér hvort hægt sé að búa til símalínu til aðstoðar þessum hópi, símalínu eins og ráðgjöf í reykbindindi sem er starfrækt m.a. við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Þá þurfa hinir of feitu ekki að sýna sig heldur geta komist í samband í gegnum síma til að byrja með og fá þannig kjark til þess að halda áfram.

Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingvarsdóttur fyrir framlag hennar því vandi barnanna er sérstaklega mikill vegna þess að stuðningur til þeirra er til staðar í skólum landsins en börnin þurfa enn meiri stuðning og þau þurfa einmitt stuðning frá foreldrum sínum til þess að breyta og bæta mataræði sitt og auka hreyfingu.

Spurning er um að auka við forvarnir og þá á hvern hátt við eigum að fara að. Ég fagna því að í smíðum er till. til þál. um þetta mál og þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir framlag hennar í þessum málum.