Kúabólusetning

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:55:05 (1538)

2001-11-14 14:55:05# 127. lþ. 29.10 fundur 261. mál: #A kúabólusetning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til heilbrrh. en hún lýtur að því hvort til sé bóluefni gegn bólusótt hér á landi?

Í öðru lagi hvenær kúabólusetningu hafi verið hætt á Íslandi?

Í þriðja lagi hvort heilbrigðisyfirvöld hafi tekið afstöðu til þess hvort hefja skuli slíkar bólusetningar að nýju?

Og í fjórða lagi hvort talið sé að þeir sem bólusettir voru fyrr á árum hafi enn mótefni gegn bólusótt?

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er kannski nokkuð ljós. Annars staðar í heiminum, fyrst í Rússlandi og nú einnig í Bandaríkjunum hefur verið í umræðunni hvort taka eigi upp almenna bólusetningu að nýju gegn stórubólu. Í fréttum í Times fyrir nokkrum dögum kom fram að Bush forseti er að velta því fyrir sér hvort bólusetja eigi alla Bandaríkjamenn þrátt fyrir vissa hættu sem af bólusetningunum stafar, en það er svo sem eins og einn af hverri milljón sem deyr af völdum kúabólusetningar. Í Bandaríkjunum eru um 260 millj. manna og þeir ætla að koma sér upp birgðum upp á 300 millj. skammta af þessu bóluefni.

Rússar sem höfðu reynslu af hernaði í Afganistan hafa mælt með því við heimsbyggðina að bólusett verði við kúabólu, en það eru rök með og á móti eins og segja má. Það er auðvitað munur á smithættunni eftir því hvort smit berst frá einum einstaklingi til annars, eða hvort skammturinn er milljónfaldur í hernaði. Það er auðvitað mikill munur á því. Hernaður setur allar hugsanir á skjön.

Við búum að framsýnum sóttvarnalögum og getum verið stolt af því að hafa sett þau lög í tæka tíð. Þar eru öll þau úrræði sem ég geri ráð fyrir að grípa þyrfti til. Bæði hefur ráðherra þar ákvörðunarvald um hvort grípa eigi til bólusetninga og er það samkvæmt IV. kafla þeirra laga um opinberar sóttvarnaráðstafanir, og sömuleiðis hefur sóttvarnalæknir ansi víðtækar heimildir til að grípa til ráðstafana við atburðum sem koma upp í landinu.

En þetta er grunnurinn að fyrirspurn minni til heilbrrh.