Kúabólusetning

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:01:30 (1540)

2001-11-14 15:01:30# 127. lþ. 29.10 fundur 261. mál: #A kúabólusetning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hans greiðu svör. Það er ljóst að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi munu hafa samflot með nágrannalöndunum, líkast til öðrum Norðurlöndum, og mér finnst það mjög eðlilegt. Bóluefni er ekki til á Íslandi frekar en í þessum löndum. Það tekur kannski einhvern tíma að framleiða það en sóttvarnalög okkar gera yfirvöldum mjög auðvelt að grípa til sóttvarnaaðgerða og ákvarða framhaldið ef nauðsyn krefur.

Talið er að býsna góð vörn hljóti að hafa fengist við kúabólusetningu á árum áður úr því að það tókst að útrýma stóru bólu úr heiminum. Þetta er dæmi um að læknisfræðin hefur mikil áhrif á gang mála eins og á svona veirusjúkdóm sem var með 40--50% dánartíðni. Þeir sem voru bólusettir á árum áður, þ.e. á áttunda áratugnum og fyrir þann tíma eins og heilbrrh. greindi frá, eru sennilega með vörn að hluta. Þeir eru hins vegar ekki alveg óvarðir, gerir maður ráð fyrir.

Mér fannst rétt að vekja athygli á þessari umræðu sem upp hefur komið í kjölfar mögulegs sýklahernaðar til þess að Íslendingar átti sig á hvernig ástatt er hér. Heilbrigðisyfirvöld hafa yfirsýn yfir málið og munu taka á því af ábyrgð.