Nýir framhaldsskólar

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:12:29 (1544)

2001-11-14 15:12:29# 127. lþ. 29.6 fundur 245. mál: #A nýir framhaldsskólar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að upplýsa að sl. vor lá fyrir skýrsla varðandi framhaldsskólann við utanverðan Eyjafjörð. Þar var nánast skrifað upp hvernig sá skóli ætti að starfa, einmitt í ljósi hinna nýju viðhorfa varðandi dreifða menntun og allt það. Það var nánast ekkert annað eftir en að auglýsa eftir kennurum, svo langt var verkið komið. Hins vegar hefur ekki fengist jákvætt svar frá hæstv. menntmrh. um það hvort auglýsa megi eftir kennurum. Og málið er það líka, herra forseti, að það er ekkert um nýjan framhaldsskóla að ræða. Það var lengi framhaldsdeild við grunnskólann á Dalvík. Síðan gerðust menn svo löghlýðnir að þeir settu skólann undir Verkmenntaskólann á Akureyri vegna þess að lögin sögðu fyrir um það. Reynslan af því varð einfaldlega sú, herra forseti, að deildin dó út í höndunum á Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þess vegna vilja menn ekki fara þá leið og vilja fremur stofna sérstakan skóla.

Menn horfa til þess að nú er hægt er að nýta ýmsa aðra möguleika en hægt var þá til að starfrækja sérstakan skóla. Einnig er horft til þess að 18 ára gömul ungmenni eru þá loks komin af barnsaldri samkvæmt lögum og eiga, herra forseti, að eiga möguleika á að vera heima hjá sér.