Nýir framhaldsskólar

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:13:58 (1545)

2001-11-14 15:13:58# 127. lþ. 29.6 fundur 245. mál: #A nýir framhaldsskólar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin og þakka umræðuna.

Ég ítreka, herra forseti, að hvert samfélag þarf stöðugt að sækja fram hvað menntun varðar. Þar styður hvað annað, því öflugri grunnmenntun í byggðarlaginu þeim mun meiri möguleikar eru á framboði á símenntun, endurmenntun og háskólamenntun, m.a. með stuðningi fjarnáms. Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um búsetuskilyrði er mikilvægi menntunar og menntunarstigisins fyrir hvert byggðarlag ítrekað. Það er ofur eðlilegt að allir, hvert byggðarlag, líti í eigin rann og kanni með hvaða hætti þeir geti styrkt og eflt menntun á sínu heimasvæði.

Ég bendi á, herra forseti, að á þessum svæðum, bæði á Snæfellsnesi og við utanverðan Eyjafjörð, eru nokkur hundruð unglingar. Á Snæfellsnesi eru um 350 unglingar á aldrinum 16--20 ára og við utanverðan Eyjafjörð búa liðlega 260 unglingar. Að vísu er ekki víst að þeir mundu allir sækja sér námið sem þarna gæti verið í boði en ljóst er að þarna er um stóran hóp að ræða og um mikla hagsmuni bæði fyrir byggð og búsetu.

Hæstv. ráðherra benti á hinar öru framfarir í tækni og fjarskiptum og vissulega er rétt að nýta tæknina til að styrkja og efla nám sem víðast um landið. Það eru kannski ofur eðlileg viðbrögð hjá öðrum skólum, sem annars fengju til sín þessa nemendur að því marki sem þeir skila sér í skóla, að þeir lýsi yfir nokkurri tortryggni og vilji verja hagsmuni sína. En þeir hagsmunir mega ekki ráða þróuninni í skólamálum.

Herra forseti. Ég ítreka að menntun og uppbygging menntunar í heimabyggð, eins og hér hefur verið rætt um og þessi sveitarfélög hafa sótt um, er eitt brýnasta hagsmunamál byggðanna í kringum landið.