Nýir framhaldsskólar

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:16:14 (1546)

2001-11-14 15:16:14# 127. lþ. 29.6 fundur 245. mál: #A nýir framhaldsskólar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. ræðumanni og fyrirspyrjanda að þessir þættir, menntun og forsendur fyrir hana í heimabyggð eru mjög mikilvægir þættir, og það er rétt að Byggðastofnun hefur lagt áherslu á að huga að þessu. Ég tel að það hafi ekki verið gert áður með róttækari hætti en unnið hefur verið að á undanförnum missirum og er að komast til framkvæmda núna m.a. með því sem ég rakti áðan, landskerfi bókasafna, rafrænum gagnagrunnum, áformum um dreifmenntun og þessari gífurlega auknu áherslu á fjarnám og fjarkennslu sem við sjáum og hlýtur að vera öllum gleðiefni sem vilja auðvelda fólki að stunda nám við þær aðstæður sem það kýs sjálft og ég sé ekki annað en að mikill vöxtur sé á þessu sviði.

Ég vil einnig upplýsa hv. þingmenn um að á vegum Menntar, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla, er verið að vinna að því núna að koma á fót upplýsingagagnagrunni sem geymir upplýsingar um allt það nám sem er í boði að loknum grunnskóla, hvort heldur er á framhaldsskólastigi, háskólastigi eða hjá einkaaðilum. Stefnt er að því að sá grunnur verði kominn til sögunnar snemma á næsta ári og þá verður líka aðgengi fyrir alla, hvar sem þeir eru, til þess að átta sig á því hvar nám er í boði, hvers eðlis það er, hve langan tíma það tekur o.s.frv. Ég held að með þeim aðgerðum sem við höfum unnið að sé verið að gera mun meiri aðgerðir í þágu náms um land allt heldur en með því að velta fyrir sér að stofna einstaka nýja skóla á óvissum forsendum eins og hv. gat um, t.d. hvort nemendur muni sækja skólana eða hvaða viðhorf ráði þar. Markmiðið er að efla forsendur fyrir menntun og menningu sem víðast og ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar og að því hafi verið unnið mjög markvisst.