Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:36:38 (1556)

2001-11-14 15:36:38# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hrollvekjandi myndir af skelfilegum umgangi útgerða um miðin í kringum landið hafa verið að birtast undanfarna daga í fjölmiðlum. Óhreinu börnin hennar Evu eru komin inn í stofur landsmanna, þeir sem gera út með örþrifaráðum. Af því að verð á kvótum er svo hátt sem raun ber vitni sjáum við slíka hluti sem þessa. Slík útgerð er óverjandi og hana ber að fordæma þó að stjórnvöld beri hér þunga sök. Það skiptir engu máli hvort þær veiðiferðir sem sýnt var frá voru settar á svið eða ekki. Gerð heimildarmyndar á grundvelli könnunar Gallups hefði sýnt álíka útkomu og þessi mynd.

En nú viðurkenna allir að þetta vandamál er alvarlegt. Áður, og það er ekki mjög langt síðan, brugðust ráðamenn alltaf ókvæða við ef slíkt var nefnt sem hér er talað um, sögðu að það væri óvirðing við sjómenn og útgerðina í landinu að ásaka menn fyrir slíka umgengni um þjóðarauðlindina. Þeir stungu höfðinu svo djúpt í sandinn að þeir sem til þekktu undruðust og spurðu: Hvers vegna vilja ráðamenn þjóðarinnar sem bera ábyrgð á nýtingu auðlindarinnar ekki viðurkenna svo alvarlegt vandamál? Svarið er: Þeir óttuðst um eignarhald útgerðarmanna á auðlindinni, óttuðust að þær breytingar sem gera þarf til að koma í veg fyrir brottkast hefðu það í för með sér að hinn gífurlegi auður sem felst í því að geta selt öðrum aðgang að auðlindinni rynni að einhverju leyti úr höndum kvótaeigenda.

Hér hafa menn haldið ræður um að eignarhaldið tryggi góða umgengni um miðin. Sömu menn hafa haldið því fram að menn ættu að geta selt veiðiréttinn og keypt sín á milli án afskipta hins opinbera. Hvílík della. Það að eiga prósentubrot í fiskstofnunum á Íslandsmiðum og hafa mestu hagsmunina af því að ná verðmætasta fiskinum í samkeppni við hina eigendurna tryggir ekki góða umgengni. Þvert á móti. Hættan á brottkasti hefur aukist hröðum skrefum eftir því sem stærri hlutar stofnanna og fleiri tegundir hafa verið sett í einkaeign.

Stórfelldasta brottkastið hefur verið í aflamarkskerfinu þar sem hvert kíló er í einkaeign. Besta fyrirkomulagið til að koma í veg fyrir brottkast í aflamarkskerfi er að allur kvótinn sé á markaði og ekkert framsal leyft þannig að kvótaverðið verði til í samkeppninni þar sem besti reksturinn í útgerð fær að njóta sín en ekki braskið. En ráðherrann æðir fram undir merkjum einkaeignarhaldsins og nú eru keilan, langan og skötuselurinn komin í kvóta. Það gat náttúrlega ekki gengið að hafa þessar tegundir munaðarlausar. Það varð einhver að eiga þær líka.

Aukategundir í smábátakerfinu voru utan kvóta og það gekk ekki heldur. Nú standa línukarlarnir á smábátunum frammi fyrir því að ef þeir eru ekki tilbúnir að slá ýsuna af línunni í sjóinn aftur geta þeir ekki róið því að enga ýsu er að hafa á leigumarkaði. Eru ráðamenn trúverðugir þegar þeir segjast vilja vinna gegn slæmri umgengni um auðlindina?

Árum saman hafa á hv. Alþingi legið fyrir tillögur sem byggjast á því að hætt verði að refsa mönnum fyrir að koma með afla að landi, afla sem ekki borgar sig að hirða vegna kvótaverðs. Ráðamenn hafa alltaf ýtt þessum tillögum til hliðar. En nú hefur hæstv. sjútvrh. sjálfur flutt tillögu um aðferð af þessu tagi, þó þannig að einungis megi landa 5% úr hverri veiðiferð með þessum hætti. Tillaga ráðherrans dugar því engan veginn. Við verðum að hætta að refsa mönnum fyrir að koma með aflann að landi, og 5% eru ekki nóg til að koma í veg fyrir brottkast. Þessa tilraun þarf að gera í tvö ár eða svo þar sem menn gætu ráðið því hve miklu þeir kysu að landa utan kvóta. Verði fyrir slíkan afla verður að vera hægt að stýra eftir aðstæðum, jafnvel svæðabundið.

Að loknu slíku tímabili gætu menn metið með góðri vissu hvað er að gerast á miðunum og tekið ákvarðanir á grundvelli þeirrar vitneskju. Mín spurning til hæstv. ráðherra skal vera þessi: Er ekki kominn tími til að gera þessa tilraun, og það undanbragðalaust, ekki nein 5% heldur að leyfa mönnum að koma með allan aflann að landi en borga þeim ekki fyrir nema það sem nauðsynlegast er til þess að menn hafi ekki viðbótarhagsmuni af þessari útgerð?

Þessi tillaga hefur verið flutt hér ítrekað. Hæstv. ráðherra þarf að svara því heiðarlega, ef hann er ekki tilbúinn til að taka undir tillöguna, hvað sé að óttast ef við gerum þessa tilraun. Það þarf að útskýra fyrir þingheimi hvað menn þurfa að óttast ef þeim verður gert kleift að landa utan kvóta á tilteknu tilraunatímabili öllum afla svo að við vitum hvað er að gerast á Íslandsmiðum.