Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:47:15 (1558)

2001-11-14 15:47:15# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það jákvæða við þróun umræðna um þessi mál nú síðustu mánuði eða missiri er að umræðan sjálf er komin upp á yfirborðið og menn eru yfirleitt hættir að neita tilvist þessa vandamáls. Það er framför frá því sem áður var þegar orka manna fór í að ræða, svo ekki sé sagt rífast um, hvort yfir höfuð væri um nokkurt brottkast að ræða í sjávarútvegi okkar nú um stundir.

Hins vegar er svo auðvitað skelfilegt að horfa upp á þá sóun og þau grimmilegu brot á lögum og reglum sem í þessu eru fólgin, ekki síst ef um skipulagt, tæknivætt og fyrir fram ákveðið brottkast er að ræða. Það verður, herra forseti, að nálgast þetta mál á raunhæfan hátt og fara í aðgerðir aðrar en þær einar að auka lögregluvakt.

Ég tel í fyrsta lagi að skoða verði annars konar takmarkanir, t.d. á sókn minni fiskiskipanna. Þetta kerfi hentar þar mjög illa. Óframseljanleg þök og síðan sóknartakmarkandi aðgerðir mundu henta þeim hluta flotans miklu betur og hann á að vera sjálfstætt hólf í fiskveiðistjórnarkerfinu.

Í öðru lagi þarf að drífa sig í það og þó fyrr hefði verið að gera tilraunir með og þróa áfram aðferðafræði í sambandi við meðaflareglu. Öðruvísi mun aflamarkskerfi aldrei geta gengið.

Í þriðja lagi verða menn að skoða ákvæðin um leigu- og framsalsheimildir í tengslum við þetta vandamál, en ekki bara einar sem slíkar. Það er algerlega óumflýjanlegt að settar séu í samhengi þær reglur sem eru um tilfærslu veiðiréttarins og brottkastið. Síðast en ekki síst á að skoða upptöku nýtingar- og verðmætastuðla þannig að t.d. því vandamáli að gera eingöngu út á verðmætustu eða stærstu fiskana sé mætt með því að kvótanýtingin sé umreiknuð á grundvelli nýtingar- og verðmætastuðla.