Brottkast afla

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 16:01:00 (1564)

2001-11-14 16:01:00# 127. lþ. 29.94 fundur 141#B brottkast afla# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Brottkast sjávarafla hefur löngum fylgt fiskveiðum og það hefur verið vitað. Í reynd er ekkert sem réttlætir að sjávarfangi sé hent í sjóinn og við verðum að vinna gegn því. Ég heyri að við erum öll sammála um það.

Umræðan um brottkast sjávarafla hefur verið uppi æðilengi. Að miklu leyti hefur umræðan verið tengd við fiskveiðistjórnarkerfið. Ýmsum sem eru andvígir núgildandi leikreglum hefur þótt gott að nota brottkastið sem vopn í þeirri andstöðu og ég fullyrði að finna má dæmi um að sjávarfangi sé hent í sjóinn meðvitað og af ásetningi beinlínis í þeim tilgangi að ýta undir andstöðuna gegn gildandi leikreglum.

Hitt er annað að fiskveiðistjórnarkerfið á örugglega einhvern hlut að máli en það er út í hött að halda því fram að sjávarfangi sé hent í hafið við Ísland beinlínis og eingöngu vegna kerfisins eins og ýmsir halda fram. Margvíslegar ástæður liggja þar að baki.

Öll fiskveiðistjórnarkerfi og einnig frjálsar veiðar fela í sér brottkast eins og dæmin sanna. Í slíkri umræðu má heldur ekki gleyma þeim hluta sjávaraflans sem hent er í hafið í formi slógs, fiskhausa og fleira. Það er brottkast sem þarf einnig að huga að og koma í veg fyrir. Slíkt er ekki einungis slæm umgengni um hafið heldur einnig sóun verðmæta. Stjórnvöld og Alþingi hafa leitað leiða til að koma í veg fyrir brottkast og nú liggur fyrir þinginu frv. sem felur það í sér eins og fram hefur komið.

Hitt er annað að í þessum efnum sem öðrum verða alltaf einhverjir sem ekki fara eftir settum leikreglum hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar en láta eitthvað annað ráða athöfnum sínum.

Herra forseti. Lífríkið og fiskstofnarnir í hafinu eru okkur svo mikilvægir bæði í nútíð og ekki síður til framtíðar að menn geta ekki leyft sér að ganga um hana á þann hátt sem hér er rætt um. Að auki er um að ræða klárt lögbrot og mikla verðmætasóun. Umfram allt er um að ræða athæfi sem gengur gegn umhverfishagsmunum Íslendinga er varða lífríki hafsins og gegn því ber okkur skylda að vinna.