Færsla bókhalds í erlendri mynt

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 18:01:12 (1577)

2001-11-14 18:01:12# 127. lþ. 29.11 fundur 224. mál: #A færsla bókhalds í erlendri mynt# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að bregðast við orðum hæstv. fjmrh. að öðru leyti en því að við hinni beinu spurningu í þessari fyrirspurn tel ég mig ekki hafa fengið skýr svör en ég þakka þó svörin sem komu. Það er vegna þess að í hv. fjárln. kom þetta mál beint til umræðu. Við hverja var rætt, virðulegur forseti? Við starfsmenn fjmrn. Þar fengust þau svör að þetta mál væri sérstaklega í athugun og þess vegna hélt ég að ég mundi fá minnisblað um það í fjárln. en hef ekki fengið. Þess vegna var spurningin sett fram.

Í umræðu um þessi mál 20. júní í Danmörku á síðasta ári kom beinlínis fram að menn höfðu miklar áhyggjur af því sem mundi gerast ef Danmörk stæði utan Evrópumyntarinnar og fyrirtækin þyrftu að halda áfram viðskiptum. Menn töldu þar að þetta hefði þau áhrif að danska krónan mundi falla um 0,5--1% og vextir mundu hækka um 1%. Þess vegna kemur það mér mjög spánskt fyrir sjónir ef hæstv. fjmrh. telur að þessi gerð, að heimila bókhald í erlendri mynt, hafi engin áhrif á íslenskan gjaldmiðil sem er þó, því miður, alltaf að falla með þeim afleiðingum að fyrirtækin taka á sig gengistap, eins og ég nefndi áðan, 700, 800 eða 900 millj. og ýmsir aðrir meira og aðrir minna.