Færsla bókhalds í erlendri mynt

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 18:03:19 (1578)

2001-11-14 18:03:19# 127. lþ. 29.11 fundur 224. mál: #A færsla bókhalds í erlendri mynt# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vísa því algerlega á bug að ástæðan fyrir því að menn velta þessari ráðstöfun, þessari breytingu á löggjöf um að heimila fyrirtækjum að gera upp í erlendum gjaldmiðli og gera ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sé vegna einhvers sérstaks vantrausts á íslensku krónunni eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði. Ég held að hann ætti að tala um það við samflokksmann sinn sem situr hér, hv. þm. Kristján Möller, sem hefur sérstaklega hvatt til þess að þetta verði gert. Hann hefur spurt mig að því í þinginu hvort eigi ekki að fara að drífa í þessu. Þetta er alger misskilningur eins og ég hef reynt að útskýra í svari mínu.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson sagðist ekki hafa fengið svar við fyrirspurn sinni. Hann spurði hvort unnin hefði verið tiltekin úttekt. Svarið við því er nei. Það kom fram í máli mínu í upphafi. Hitt er annað mál að hann er að rugla því saman við það sem starfsmenn mínir hafa sagt um að unnið sé að gerð þessa frv. Það er sérstakur hópur í því og því máli verður lokið á næstunni. Þá kemur þetta frv. inn í þingið. Þannig að þetta eru tvö mál.

Annars vegar er það sú spurning hvort gerð hafi verið úttekt á áhrifum þessarar breytingar á íslensku krónunni. Ég er búinn að svara því og svo hin: Er verið að vinna að undirbúningi frv.? Vitanlega. Það er verið að vinna að því eins og hér hefur margkomið fram og tilkynnt var í tengslum við framlagningu skattafrv. ríkisstjórnarinnar, eins og margoft hefur verið talað um, bæði hér í þingsalnum og víðar og frekar er verið að ýta á eftir heldur en hitt. Það er ekki vegna þess að menn telji að það hafi einhver vond eða góð áhrif á íslensku krónuna. Það er vegna þess að þetta er framsetningarmál. Þetta eykur og bætir frásagnargildi ársreikninga fyrirtækja gagnvart erlendum aðilum hvort sem menn vilja fjárfesta hér, hvort sem íslensk fyrirtæki vilja hasla sér völl í útlöndum eða hvað eina sem ég rakti hér áðan. Það er málið. Þetta er hagkvæmnismál en ekki efnahagsmál.