Heildarlántökur erlendis

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 18:14:36 (1584)

2001-11-14 18:14:36# 127. lþ. 29.12 fundur 225. mál: #A heildarlántökur erlendis# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel ekki að hv. þm. hafi lagt mig í sérstakt einelti með því að leggja fram tvær spurningar í dag. Það er ekkert athugavert við það. En svarið sem ég las er það sem Seðlabankinn gefur upp varðandi þetta. Hann heldur saman upplýsingum um stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum og auðvitað geta þingmenn beint spurningum sínum beint þangað án milligöngu fjmrn. því að Seðlabankinn er ekki undirstofnun þess eins og kunnugt er.

Eitt er að vera með tölurnar og annað síðan að leggja út af þeim og greina hvað í þeim kann að felast. Þessir rúmlega 660 milljarðar innihalda einnig lántökur lánastofnana og skuldir lánastofnana við útlönd. Hvað skyldi mikið af því hafa farið í arðbærar fjárfestingar innan lands og skilað gjaldeyri síðar meir upp í þessar skuldir? Hvað skyldi vera mikið af lánum, t.d. til sjávarútvegsins eða útflutningsatvinnuveganna sem þarna eiga eftir að skila sér? Það er ekki þar með sagt, þó að þjóðarbúið hafi aukið skuldir sínar, að það fé hafi allt farið í einhverja vitleysu. Ég veit að hv. þm. er mér sammála um það. Það þarf að greina það betur til að hægt sé að draga af því einhverjar ályktanir.

Við opnuðum fjármálakerfið til útlanda fyrir nokkrum árum í góðu samstarfi við þáv. flokk hv. þm., í stjórnarsamstarfi við Alþfl. Þar er gengið út frá því að allir, einstaklingar, fyrirtæki, lánastofnanir og aðrir sem á annað borð hafa lánstraust í útlöndum, geti fengið þar lán ef þeir hafa slíkt lánstraust, án leyfa og milligöngu hins opinbera. Ég vænti þess ekki að þingmaðurinn vilji breyta því. Eigum við að banna fólki að taka lán í útlöndum ef það hefur til þess lánstraust? Eigum við að taka áhættuna af hinum erlenda lánveitanda sem setur fé sitt í útlán og tekur þar með einhverja áhættu eins og alltaf er gert? Ég held ekki að þingmaðurinn kæri sig um það frekar en ég.