Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:37:08 (1587)

2001-11-15 10:37:08# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir tækifæri til að ræða einkarekstur í heilsugæslunni en ég vil byrja mál mitt á grundvallarmarkmiðum sem ég tel að góð heilsugæsla byggist á en þau eru eftirfarandi:

1. Óslitin þjónusta þar sem áhersla er lögð á fast og langvarandi samband læknis og sjúklings.

2. Yfirgripsmikil þjónusta þar sem áhersla er lögð á æviskeiðið allt og alla flokka sjúkdóma, ekki aðeins í lækningalegum tilgangi heldur einnig í heilsuvernd.

3. Einstaklingsmiðuð þjónusta þar sem áhersla er lögð á að sameina vísindalega, mannúðlega og félagslega nálgun þar sem hagsmunir sjúklings eru settir í öndvegi.

4. Ábyrg þjónusta þar sem áhersla er lögð á að þróa gagnkvæmar skyldur heimilislæknisins og sjúklingsins.

Við á Íslandi höfum haft þessi meginmarkmið að leiðarljósi við uppbyggingu heilsugæslunnar. Þegar íslenska heilsugæslan er borin saman við grunnþjónustuna í öðrum löndum, þá er það mín skoðun að við getum kinnroðalaust horft framan í nágranna okkar. Gildir þá einu hvort við horfum til veittrar þjónustu eða aðstæðna og almennra kjara starfsmanna. Uppbygging hefur gengið hægar en ég hefði kosið á höfuðborgarsvæðinu en í þeim umræðum mega menn hins vegar ekki gleyma að vaktþjónusta lækna sem er einkarekin hefur fært mjög út kvíarnar síðustu missiri. Umfangið hefur aukist um 30% frá árinu 1999 ef áætlanir ganga eftir, og þetta verða menn t.d. að hafa hugfast þegar rætt er um bið í heilsugæslunni. Almennt séð er það skoðun mín og raunar forvera míns líka að heilsugæslan eigi að vera sú grunnþjónusta þangað sem fólk leitar fyrst ef það þarf á lækni að halda.

Við höfum á undanförnum sex árum reynt að stuðla að því að fólk nýtti sér þennan kost með því að halda komugjöldum til heilsugæslulækna í lágmarki og hækka þau ekki þegar önnur gjöld hafa verið hækkuð í heilbrigðisþjónustunni.

Virðulegi forseti. Sem svar við fyrstu spurningu hv. þm. vil ég segja þetta: Mér hugnast það ekki ef heimilislæknar eru farnir að bjóða upp á vitjanir í heimahúsum fram hjá þeirri ágætu grunnþjónustu sem við rekum sameiginlega og hvet, eins og ég segi, til þess að menn nýti sér þá þjónustu. Ég mun hins vegar láta kanna hvort sótt hefur verð um leyfi fyrir þessari þjónustu og eins hvernig landlæknisembættið hyggst fylgjast með þessu máli faglega eins og lög standa til að gert sé.

Sem svar við annarri spurningu hv. þm. vil ég segja þetta: Grunnþjónusta heilsugæslunnar er sterkari en svo í vitund fólks, og vilji til að viðhalda því kerfi er meiri en svo að einn heimilislæknir í Reykjavík ógni því fyrirkomulagi. Einstaka dæmi sem getur verið útgangspunktur umræðu á Alþingi mun ekki leiða til kerfisbreytingar að mínum dómi.

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr um viðbrögð við því sem hún kallar aðsteðjandi vanda í heilsugæslunni. Þingmaðurinn á þá við þá staðreynd sem liggur því til grundvallar að ég skipaði fyrir nokkru nefnd til að fara yfir heilsugæslumálin á höfuðborgarsvæðinu og á öllu landinu í heild sinni en skortur er á heilsugæslulæknum. Í því starfi og starfi því tengdu sem er unnið innan ráðuneytisins hefur komið fram að æskilegt sé að fjölga námsstöðum í heilsugæslunni. Það verður að gera.

Einnig hefur komið fram á fundum með fulltrúum háskólans að áhugi fyrir heilsugæslunni sé mjög að glæðast og þann áhuga verður enn að glæða og fjölga heilsugæslulæknum.

Í þriðja lagi --- af því að hv. þm. nefnir launakjörin sérstaklega --- vil ég biðja menn að fara varlega í fullyrðingar á því sviði. Launaúttekt Ríkisendurskoðunar á kjörum lækna sem að mörgu leyti fékk ekki þá athygli sem æskilegt hefði verið bendir eindregið til að kjör heilsugæslulækna séu að meðaltali nokkuð góð, þannig að fréttir af lélegum kjörum þeirra eru ýktar þegar kjörin eru borin saman við aðrar sérgreinar.

Að lokum vil ég segja að ég hef margsinnis úr þessum ræðustól lýst stefnu minni varðandi heilbrigðismálin, að aðgangur að heilbrigðisþjónustu eigi að vera almennur og að ekki eigi að vera tvö kerfi hérlendis. Þær skoðanir hafa ekkert breyst.