Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:44:16 (1589)

2001-11-15 10:44:16# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég fagna umræðu um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu því stjórnarandstæðingar hér á þingi hafa yfirleitt haldið uppi þeirri umræðu með neikvæðum formerkjum. Í fyrirspurnatíma í gær var upplýst að samkvæmt frv. til fjárlaga yrði um 30 millj. kr. varið til einkareksturs í heilbrigðisþjónustu á næsta ári. Þetta svarar til a.m.k. 22% af fjármagni sem ætlað er til málflokksins.

Það kom m.a. fram að fjölmargar stofnanir eru reknar af einkaaðilum og þetta eru stofnanir eins og Hrafnistuheimilin, Skjól og Eir í Reykjavík, Sunnuhlíð í Kópavogi, Reykjalundur í Mosfellsbæ, Sjúkrastöð SÁÁ, Heilsustofnunin í Hveragerði og ágætar öldrunar- og endurhæfingarstofnanir, læknavaktin í Kópavogi, heilsugæslan í Lágmúla, einnig sérfræðileg læknisþjónusta, hjúkrunar-, tannlækna- og endurhæfingarþjónusta utan sjúkrahúsa og lyfjaafgreiðsla.

Þessar stofnanir eiga það sameiginlegt að vera kunnar að áreiðanlegri og góðri heilbrigðisþjónustu. Þetta er einkarekin heilbrigðisþjónusta en að mestu greidd af opinberu fé. Þetta er grýlan sem stjórnarandstaðan á hinu háa Alþingi varar við. Sjálfstæðismenn telja að heilbrigðisþjónusta sé, líkt og menntakerfið, samfélagsleg þjónusta sem eigi að mestu að vera greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Sjálfstæðismenn vilja að ríkið skilgreini þá heilbrigðisþjónustu sem veita á, greiði fyrir hana að mestu og hafi með höndum visst gæðaeftirlit. Stjórnvöld eiga hins vegar að semja við einkaaðila, félagasamtök, sveitarfélög eða jafnvel stofnun sem rekin er af ríkinu ef svo ber við um rekstur þjónustunnar.

Í umræðunni í dag gerir stjórnarandstaðan enn eina tilraun til að gera hugmyndir um einkaframtak í heilbrigðisþjónustu tortryggilegar. Það er rangt að hugmyndir sjálfstæðismanna leiði til mismununar sjúklinga, að hinir efnameiri geti keypt sig fram fyrir og jafnvel fengið betri þjónustu en hinir efnaminni. Það er rangt að við séum að tala um tvöfalt heilbrigðiskerfi og það er rangt að hugmyndir okkar þýði að almenningur þurfi að borga meira eða að fullu fyrir þjónustuna. Hugmyndir sjálfstæðismanna leiða til betri og skilvirkari þjónustu við sjúklinga og betri nýtingar fjármagns. Að halda öðru fram er í besta falli byggt á misskilningi en í versta falli er um vanþekkingu eða útúrsnúninga að ræða.