Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:53:34 (1593)

2001-11-15 10:53:34# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég held að menn verði að huga að því með hvaða hætti heilbrigðisþjónustan hefur þróast, ekki aðeins í Bandaríkjum, eins og hér var farið yfir með nokkuð mikilli ónákvæmni reyndar, heldur einnig í Evrópu. Í Evrópu hefur þróast mjög fullkomið heilbrigðiskerfi, almannatryggingakerfi sem stendur undir almennri opinberri heilbrigðisþjónustu. En þar hefur einnig þróast mjög fullkomið heilbrigðiskerfi sem er rekið af virtum einkafyrirtækjum sem taka þátt í að leysa fyrirliggjandi vandamál og eru verulegur hluti af heildarlausninni.

Það er að sjálfsögðu enginn sem leggur til að hér verði lögð niður opinber þjónusta, ekki nokkur maður hefur minnst á það. Hins vegar er ljóst að Sjálfstfl. vill að þeim verkefnum sem til verða í heilbrigðisþjónustunni verði sinnt af einkafyrirtækjum og það er líka alveg ljóst að þau geta tekið verulegan þátt í að bæta þjónustuna hér. Sumir hafa gengið svo langt, þó að mér sé ljóst að það sé ekki nema takmarkaður stuðningur við það á Alþingi, að lýsa yfir vilja til að hin fullkomna heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði nánast gerð að útflutningsvöru. Það verður að sjálfsögðu ekki gert nema fjárfest sé í þessari heilbrigðisþjónustu þannig að við getum jafnvel boðið hana öðrum þjóðum eins og t.d. Englendingar gera í stórum stíl. En það gera menn ekki öðruvísi en að fjárfesta í þessu. Það má því segja að ein af forsendum þess að við getum einkavætt heilbrigðisþjónustuna hér, sem ég held að sé mjög gagnlegt, sé að við fjárfestum í heilbrigðisþjónustunni, gerum hana enn öflugri til að sinna verkefnum sínum og þá sjáum við fyrst hversu langt við erum frá þeim dómadagsboðskap sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir boðaði áðan.