Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:55:35 (1594)

2001-11-15 10:55:35# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:55]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum í dag áform um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að vekja máls á þessu efni en ég verð að segja að ég vorkenni hæstv. heilbrrh. að þurfa að slást við það sem mér sýnist vera óbeinar grimmdaraðgerðir Sjálfstfl. til að knýja fram einkavæðingu. Þær aðgerðir felast í fjársvelti til heilbrigðisstofnana.

Fyrir fjórum árum benti ég á þriggja milljarða fjárvöntun í kerfinu sem sagt var að væru ósannindi. Þegar grunnurinn var lagfærður ári síðar var fjárvöntunin fimm milljarðar. Ég hef varið þær aðgerðir og það aðhald sem menn settu þá upp en nú er mér nóg boðið. Hallinn, miðað við áætlanir, stefnir í tvo milljarða á næsta ári sem byggist á röngum forsendum fjárlaga. Fjárvöntunin á Sjúkrahúsi Akureyrar verður væntanlega 592,5 millj., á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi yfir 500 millj. Það er í rauninni verið að svelta menn til aðgerða.

Áform Sjálfstfl. eru að einkavæða, en hvað? Þvottahúsin, eldhúsin, blóðrannsóknir, glasafrjóvgun, viðhald og rekstur bygginga og fjölmargt annað sem að mínu mati þarf að vera undir einni yfirsýn. Sem dæmi um fjárvöntunina vantar 200 millj. til tækjakaupa. Hvað er áætlað í fjárlagafrv.? 20 millj.

Herra forseti. Ég segi bara þetta: Það er kominn tími til að losa landið úr einkavæðingarkrumlum íhaldsins.