Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 11:00:03 (1596)

2001-11-15 11:00:03# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, svör hæstv. heilbrrh. og þeim hv. þm. sem tóku þátt og nefni sérstaklega hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason sem svaraði með mjög skýrum dæmum rakalausum fullyrðingum hv. þm. Ástu Möller og fleiri sjálfstæðismanna, staðhæfingum um að einkaaðilar reki þessa þjónustu betur en aðrir. Það sanna dæmin víðs vegar um heiminn að svo er ekki og kannski er skýrasta dæmið frá draumalandi sjálfstæðismanna í þessum efnum, Bandaríkjunum, þar sem rekið er eitt dýrasta heilbrigðiskerfi í heiminum.

Herra forseti. Vandamálið er hin veika staða heilsugæslunnar. Uppbygging hennar hefur setið á hakanum meðan átölulaust hefur verið horft upp á svokallaðar einkastofur sérgreinalækna spretta upp um allan bæ án vitneskju eða skoðunar stjórnvalda á því hvort eða hversu mikil þörf sé fyrir slíka þjónustu. Má því segja að ákveðinn misþroski sé í heilbrigðiskerfinu hvað þetta varðar sem hefur verið á höfuðborgarsvæðinu á kostnað heilsugæslunnar þrátt fyrir að almennt er viðurkennt og það er almenn stefna að heilsugæslan sé samfélaginu hagstæð, bæði hvað varðar þjóðheilsu sem og kostnað samfélagsins við heilbrigðisþjónustuna.

Ef til vill vantar, herra forseti, heildaryfirsýn og í því skyni hefur m.a. Samfylkingin óskað eftir skýrslubeiðni um umfang, rekstur og þróun heilbrigðisþjónustunnar og rekstrarkostnað hennar sem ég tel mjög mikilvægt að sé látin fara fram þannig að heildaryfirsýn náist yfir kerfið, því að eins og nefnt var í umræðunni áðan af hv. þm. Jónínu Bjartmarz er það lykilatriði til að unnt sé fyrir stjórnvöld að hafa bönd á kostnaðinum, sem er gríðarlega mikilvægt verkefni, að heildaryfirsýnin sé til staðar.

Það dæmi sem var tilefni þessarar umræðu er vissulega dæmi um einn tiltekinn lækni og kannski ekki ástæða til að óttast að þetta eina dæmi umbylti almannatryggingakerfinu. En, herra forseti, við eigum að hafa augun opin fyrir þeirri þróun sem er að eiga sér stað og bregðast við henni áður en slysin gerast, herra forseti.