Fasteignakaup

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 11:20:52 (1599)

2001-11-15 11:20:52# 127. lþ. 30.1 fundur 253. mál: #A fasteignakaup# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[11:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að mjög ánægjulegt er að frv. til laga um fasteignakaup skuli vera komið fyrir hið háa Alþingi og má e.t.v. segja sem svo að það hefði þurft að vera komið fyrir margt löngu. En ekki skal málið rætt á þeim grunni heldur frekar það sem hér er fram komið og fjalla um þær hugmyndir sem hér eru settar fram.

Ég held að rétt sé að vekja athygli á því strax í upphafi að í reynd hafa þær reglur sem hér er lagt til að lögfesta verið mestan part í gildi um fasteignakaup í langan tíma því að hér er fyrst og fremst verið að lögfesta reglur sem hafa átt rætur sínar að rekja til laga um lausafjárkaup og venja sem hafa myndast á þeim markaði, þó að hér sé reyndar einnig um nokkur nýmæli að ræða og kveðið nánar á um nokkra hluti.

Þegar lög um fasteignakaup eru rædd verður vitaskuld að hafa í huga að fasteignakaup eru hjá flestum stærstu kaup sem einstaklingar ráðast í um ævina. Þess vegna er mjög mikilvægt að um þetta svið gildi skýrar og nákvæmar reglur. Af því að hæstv. ráðherra vitnaði til Norðmanna er það fyrsta sem kannski stingur í augu hugmyndin eða sú leið, sem ég held að Danir hafi farið, að lögmenn koma jafnan að þessum viðskiptum fyrir hönd beggja aðila, þ.e. bæði kaupendur og seljendur hafa umboðsmenn sína þegar kemur að slíkum kaupum. Hér hefur sú venja myndast eða það er yfirleitt þannig að fasteignasalar sjá um hlutina bæði fyrir kaupendur og seljendur og jafnan er mjög erfitt að gæta hagsmuna beggja. Þess vegna held ég að það sé eitt af því sem vert er að velta upp í umræðunni hvort Alþingi eigi að skoða að leggja til að hvor aðili um sig hafi umboðsmann á vettvangi, en fasteignasalar hafi fyrst og fremst með höndum að taka fasteignir í sölu og taka á móti kauptilboðum. Ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að hugleiða því að það verður aldrei of oft sagt að þetta eru stærstu einstöku kaup einstaklinga og því mjög mikilvægt að rétt verði að þeim staðið. Þarf ekki að rekja hvílíkar hörmungar það eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga þegar slíkir hlutir ganga ekki eftir eins og menn vildu að þeir gerðu.

Í öðru lagi vek ég einnig athygli á ákvæði 18. gr. frv. og er rétt að lesa þá grein upp, með leyfi forseta:

,,Fasteign telst gölluð ef hún stenst ekki þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögum þessum og kaupsamningi. Notuð fasteign telst þó ekki gölluð, nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi.``

Ég held að mikilvægt sé að hér staldri menn örlítið við því að hér er verið að fjalla um notaða fasteign og að ágallinn sé ekki --- ég veit ekki hvort ég á að segja marktækur eða ekki ástæða til að líta til hans nema hann rýri verðmæti fasteignarinnar svo nokkru nemi. Þá erum við einmitt komin að því hvað það er sem rýrir fasteign svo nokkru nemi. Hvaða mælikvarði er það?

Ef við ætlum að setja reglur finnst mér verðugt umhugsunarefni hvort við eigum að skila frá okkur reglum af þeim toga sem segja ekki neitt. Réttarstaðan er ekkert skýrari en sú sem er fyrir þó að þessi regla verði lögfest því að dómstólar fjalla um þessa hluti. Ég held að þetta sé eitt af því sem við hljótum að skoða í hv. allshn., en þar á ég sæti og get því fjallað um þetta þar, hvort hér þurfi ekki að skýra eitthvað frekar. Hér er í rauninni ekki verið að gera neitt annað en að lögfesta gildandi réttarástand sem skýrir það ekkert frekar.

Annars vil ég almennt segja um frv. eins og ég sagði í upphafi að fyrst og fremst er verið að lögfesta gildandi réttarástand hvort sem reglur hafa komið úr lögum um lausafjárkaup eða venjum sem myndast hafa á markaðnum og almennt vil ég segja og ítreka að ég fagna mjög frv. þó að vissulega séu í því ýmis atriði sem rétt er að skoða frekar.

Að sjálfsögðu staldrar maður við VIII. kafla frv. og veltir því fyrir sér hvaða hugsun býr að baki því að bjóða upp á einhvers konar --- ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta --- tryggingu ef svo má að orði komast, þ.e. seljandi getur fengið einhvern aðila sem fengið hefur rétt til þess að útbúa ástandsskýrslu um eignina og þannig eiginlega keypt sig undan ábyrgð á göllum á fasteigninni því að ef fasteignin er seld og skýrslan ekki nema sex mánaða gömul eða yngri ber seljandi ekki ábyrgð á þeim göllum sem kunna að koma fram. Við lestur frv. er þetta það fyrsta sem kemur upp í hugann, en ég tek þó skýrt fram að ég á eftir að skoða þetta miklum mun betur í hv. allshn. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að hér sé um einhvers konar tryggingaraðgerð að ræða, þ.e. að seljandi geti keypt sér tryggingu fyrir göllum líklega vegna þeirrar hlutlægu ábyrgðar sem henni fylgja og trúlega munu engir aðrir koma að þessu nema fjársterkir aðilar og tryggingafélög. Það er það fyrsta sem kemur upp í hugann. En þetta á eftir að skoða miklu betur og er því ástæðulaust að taka á móti þessu með neikvæðum tón þó að þetta stingi ögn í augu fyrsta kastið.

Almennt vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég fagna því að komið er fram frv. um þessi mál. Við eigum eftir að fjalla mjög ítarlega um frv. í nefndinni og þar á án efa ýmislegt eftir að koma upp sem nauðsynlegt er að skoða frekar, en þó er það spor í rétta átt, virðulegi forseti, að frv. með þessum reglum skuli vera komið fram.