Fasteignakaup

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 11:57:52 (1602)

2001-11-15 11:57:52# 127. lþ. 30.1 fundur 253. mál: #A fasteignakaup# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[11:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. svaraði ekki öllum þeim spurningum sem ég beindi til hennar og ég taldi mikilvægt að fá fram við 1. umr. Ef hæstv. dómsmrh. hefur ekki svör við þeim nú við 1. umr. þá óska ég eftir því að þeim verði a.m.k. svarað þannig að það komist þá til skila til allshn. sem fjallar um þessi mál eða þá til mín sem fyrirspyrjanda um þessi atriði sem ég tel mikilvægt að fá upplýst.

Ég spurði hæstv. ráðherra um ákvæði í 12. gr. laga um fasteignafyrirtæki og skipasölu, þ.e. 12. gr. sem kveður nokkuð á um skyldur fasteignasala varðandi sölumeðferð á eign. Hann hefur ákveðnar skyldur til að setja inn í söluyfirlit grundvallaratriði varðandi ástand eignar sem skipt geta kaupanda máli, svo sem vegna stærðar eignarinnar og ástands hennar, byggingarlag og byggingarefni.

Er ég ekki í andsvari, herra forseti?

(Forseti (GuðjG): Forseti tók það svo að hv. þm. hefði beðið um orðið. Það er hv. þm. í sjálfsvald sett hvort hann vill fremur fara í andsvar.)

Mér nægir alveg andsvar af því að ég ætla ekki að lengja umræðuna.

(Forseti (GuðjG): Þá lítum við svo á að hv. þm. sé í andsvari.)

Ég var að spyrja um 12. gr. þessara laga sem ég nefndi, hvort verið væri að létta þeim kröfum af fasteignasölunum sem eiga að setja inn í söluyfirlit sitt ákveðin grundvallaratriði varðandi ástand eignarinnar sem skipt geta sköpum varðandi stærð hennar, ástand, byggingarlag og byggingarefni. Er verið að firra hann því að setja þetta inn í söluyfirlit og ef ekki, skarast þetta þá ekki við ástand skýrslunnar?

Mér finnst mjög sérkennilegt að ekki sé hægt að upplýsa betur um kostnaðinn við ástandsskýrslur en hæstv. ráðherra gerir hér. Ég óska eftir því að það verði skoðað meðan málið er í meðferð, að menn reyni að átta sig á þessu varðandi kostnaðinn. Ég spyr einnig: Hvað ef galli kemur upp eftir að skýrsla er gerð? Hver er þá ábyrgur? Er seljandinn ábyrgur eða úttektarmaðurinn sem gerir slíka skýrslu? Mér finnst afar mikilvægt að fá svör við slíkum spurningum við þessa umræðu.