Fasteignakaup

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 12:04:29 (1605)

2001-11-15 12:04:29# 127. lþ. 30.1 fundur 253. mál: #A fasteignakaup# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[12:04]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áður í andsvari mínu að það er brýn nauðsyn að fasteignasalar hafi áfram þær skyldur sem kveðið er sérstaklega á um í lögum.

Hins vegar varðandi það atriði sem hv. þm. spyr um, hvort þetta ætti líka að vera á þeirra könnu, þá var einmitt litið til þeirrar reynslu sem verið hefur af löggjöf á Norðurlöndum víða um þessi efni. Ákveðið var og valið sérstaklega að fara þessa leið, þ.e. að hafa þann háttinn á að það væru sérstakir skoðunarmenn sem gerðu þessar ástandsskýrslur þannig að það væri ekki hlutverk fasteignasala. Þeir bera hins vegar ákveðna ábyrgð í þessu sambandi.

Líka var minnst sérstaklega á þýðingu ástandsskýrslna og vitnað í 64. gr. Mig langar til þess að fá að benda hér á athugasaemdir um 64. gr. í frv. þar sem rætt er um að ástandsskýrsla þurfi að hafa verið gerð á síðustu sex mánuðum áður en kauptilboð er gert. Og síðan segir:

,,Ekki þykir fært að hafa tímann lengri miðað við hina miklu þýðingu sem skýrslan hefur, því ýmislegt getur farið aflaga á sex mánuðum, að ekki sé talað um lengri tíma. Hafi ástandsskýrsla verið lögð fram og hún unnin innan þess tíma sem að framan greinir og tilboð er gert í fasteign, sem samþykkt er, getur kaupandi ekki borið fyrir sig galla gagnvart seljanda. Hann verður að beina kröfum að þeim sem gerði ástandsskýrslu, þ.e. ef gallar hefðu átt að koma fram í henni. Ef þeir hefðu ekki átt að koma fram í henni getur hann beint kröfum að seljandanum. Telja verður að slíkt yrði mjög fátítt.``

Ég hygg að þessi orð svari ágætlega þeirri spurningu sem hv. þm. setti hér fram um þetta efni.