Kirkjuskipan ríkisins

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 12:28:26 (1607)

2001-11-15 12:28:26# 127. lþ. 30.2 fundur 19. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[12:28]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins örstutt vegna þessa frv.

Á bls. 2 í frv. í greinargerðinni er vitnað í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem talað er um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða o.s.frv. Því langar mig til þess að geta þess að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar kemur ekki í veg fyrir ríkiskirkju í sjálfu sér. Það er viðurkennt á vettvangi alþjóðlegra mannréttinda að svo lengi sem menn missa engra borgaralegra réttinda, þótt þeir tilheyri öðrum trúfélögum, þá sé þetta í lagi.

Það er líka talað um það á bls. 3 að með núverandi skipan mála megi segja að öðrum trúarhópum en þjóðkirkjunni sé sýnt óréttlæti sem ekki samrýmist eiginlegu trúfrelsi. Það er ekkert óréttlæti sýnt öðrum trúfélögum. Þeir sem tilheyra öðrum trúfélögum njóta jafnt allra borgaralegra réttinda. Ríkjandi kirkjuskipun nýtur aðeins þeirrar verndar að starfsmenn kirkjunnar eru ríkisstarfsmenn. Enginn mismunun á sér stað sem brýtur gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar eða trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Allir geta jafnt valið sér trúfélag sem þeir óska og þeir greiða skatta sína til þess trúfélags en engin gjöld til þjóðkirkjunnar.

Herra forseti. Ég vildi bara láta þessa athugasemd koma fram. En að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig um efni þessa frv.