Vopnalög

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 12:36:01 (1613)

2001-11-15 12:36:01# 127. lþ. 30.3 fundur 40. mál: #A vopnalög# (skoteldar) frv., Flm. ÁMöl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[12:36]

Flm. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á vopnalögum, nr. 16/1998. Flutningsmenn eru auk þeirrar sem hér talar hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Drífa Hjartardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Fjeldsted.

Í því frv. til laga sem ég mæli nú fyrir er lagt til að:

,,32. gr. laganna orðast svo:

Bannað er að selja eða afhenda skotelda einstaklingi yngri en 18 ára. Heimilt er þó að selja þeim sem eru eldri en 15 ára skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss.``

Og 2. gr. mundi hljóða svo:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Frumvarp þetta var lagt fyrir á 126. löggjafarþingi en ekki náðist að afgreiða það. Því er frumvarpið flutt að nýju efnislega óbreytt en með nokkrum orðalagsbreytingum.

Samkvæmt 1. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, er með skoteldum átt við flugelda, reyk- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrautelda. VI. kafli vopnalaga fjallar um meðferð skotelda. Þar er m.a. kveðið á um að sala eða afhending skotelda til barna yngri en 16 ára sé bönnuð sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum og að öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára sé óheimil.

Ráðherra er heimilt skv. 33. gr. vopnalaga að setja reglur um að ekki megi selja almenningi ýmsar skaðlegar tegundir skotelda og um sérstakt eftirlit í því skyni. Núgildandi reglugerð um sölu og meðferð skotelda, nr. 536/1988, er frá 19. desember 1988 en hún hefur verið til endurskoðunar um nokkurt skeið í ráðuneytinu. Markmið endurskoðunarinnar er að samræma og endurbæta þessar reglur og auka öryggi í meðferð skotelda.

Hér á landi hefur athygli og umræður um skotelda og slys af völdum þeirra að öllu jöfnu verið bundin við áramót, enda er almenn notkun og sala skotelda til almennings einungis heimil á tímabilinu 27. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum, nema með leyfi lögreglustjóra, samkvæmt núgildandi reglugerð um sölu og meðferð skotelda.

Samkvæmt 32. gr. vopnalaga er leyfilegt að selja og afhenda skotelda til barna undir 16 ára aldri sé þess getið í leiðbeiningum. Sala á skoteldum er óheimil til barna undir 12 ára aldri. Samkvæmt þessu ákvæði er það lagt í hendur framleiðanda eða innflytjanda vörunnar að taka ákvörðun um hvort heimilt sé að selja vöruna börnum yngri en 16 ára en það er í verkahring hans að sjá um að leiðbeiningar um meðferð vörunnar séu límdar á hana.

Almenn notkun skotelda um áramót er mikil. Tíðni slysa af völdum skotelda hér á landi er há og á það sérstaklega við um slys á börnum. Nauðsynlegt er að herða öryggisreglur um meðhöndlun skotelda og reglur um sölu á skoteldum og endurskoða aldursmörk við sölu þeirra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þróunar í nálægum löndum þar sem aldursmörk um sölu á skoteldum hafa verið færð upp til 18 ára aldurs og tekin hefur verið upp flokkun á skoteldum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að aldursmörk við sölu skotelda séu færð úr 16 ára aldri til 18 ára aldurs. Þó sé heimilt að selja börnum frá 15 ára aldri skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss. Skoteldar sem ætlaðir eru til notkunar innan húss eru t.d. reykbombur, innisprengjur, borðsprengjur, kastbombur, skrauteldspýtur, knöll og snákar.

Það er að gefnu tilefni sem ég tek þetta fram vegna þess að umræða hefur verið um hvað felst í skoteldum sem eru ætlaðir til notkunar innan húss.

Að jafnaði er miðað við að áhrifasvæði skotelda sem falla undir þessa skilgreiningu sé að hámarki 0,5 m radíus frá kveikjustað og falla stjörnuljós því undir þennan flokk skotelda þótt þau séu almennt notuð utan húss. Þetta eru skoteldar sem falla í flokk 1 samkvæmt evrópskum stöðlum um flokkun skotelda. Gert er ráð fyrir að ný reglugerð um skotelda, sem væntanleg er innan tíðar, setji skýrari reglur um flokkun þeirra. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 32. gr. vopnalaga yrði það ekki lengur á valdi framleiðanda eða innflytjanda að ákvarða hvaða skotelda megi selja yngri aldurshópnum heldur yrði skýrt kveðið á um það í lögum og nánar útfært í reglugerð um skotelda.

Í greinargerð með frv. er m.a. byggt á svörum hæstv. dómsmrh. og hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn þeirrar sem hér stendur um sölu á skoteldum og um slys af völdum skotelda. Í svörum hæstv. dómsmrh. kemur m.a. fram að á undanförnum árum hafi orðið gríðarleg aukning í innlendri framleiðslu, innflutningi og sölu skotelda hér á landi. Það kemur m.a. fram að framleiðsla skotelda í stykkjum talið hafi aukist hér á landi um 60% á fimm ára tímabili, á árabilinu 1995--1999. Að sama skapi hefur innflutningur á skoteldum margfaldast á undanförnum árum. Hann nær fjórfaldaðist á tímabilinu 1995--1999, úr um 150 tonnum í nær 550 tonn á árinu 1999.

Um slys af völdum skotelda er ítarlega fjallað í greinargerðinni. En ég vil í nokkrum orðum greina frá athugun yfirlæknis slysa- og bráðamóttöku og samantekt bráðamóttöku Landspítala -- háskólasjúkrahúss og samantekt Slysavarnafélagsins Landsbjargar um flugelda um áramótin 1999/2000. Samkvæmt þessum athugunum kemur fram að á tímabilinu 28. desember 1999 til 2. janúar 2000 leituðu alls 35 manns til slysa- og bráðavaktar Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna slysa af völdum skotelda. Þar af var 21 á aldrinum 0--19 ára og 13 þeirra á aldrinum 10--14 ára. Af hinum slösuðu var 31 karlkyns. Þetta voru upplýsingar eingöngu frá Reykjavíkursvæðinu því tölur um slys af völdum skotelda í öðrum landshlutum liggja ekki fyrir.

Í samantekt Landsbjargar kemur fram að undanfarin áramót hafi að meðaltali um tíu manns leitað á slysadeildina vegna flugeldaslysa á nýársnótt, en ljóst er að rúmlega tvöfalt fleiri þurftu aðstoð og aðhlynningu um áramótin 1999/2000 en áður. Athygli vekur hve margir hinna slösuðu eru ungir, en 60% þeirra eru 19 ára og yngri og um 40% af öllum slösuðum eru strákar á aldrinum 10--14 ára. Þegar slys eiga sér stað má í mörgum tilvikum kenna um óvitaskap, óvarkárni og því að ekki hefur verið farið eftir leiðbeiningum.

Um síðustu áramót voru slys nokkru færri en áramótin á undan og eru ýmsar skýringar á því, m.a. varð töluverð umræða um skoteldaslys rétt fyrir síðustu áramót, milli jóla og nýárs, m.a. vegna þess frv. sem hér er. Ég vil nú leyfa mér að draga þá ályktun að sú umræða hafi skilað sér í því að fólk fór að skoða nánar sinn gang varðandi umgengni barna við skotelda.

Á síðustu árum hafa verið sett ný lög og nýjar reglur um skotelda í nágrannalöndunum og mikið átak verið gert í þessum málum. Þau atriði sem hafa verið sérstaklega skoðuð á Norðurlöndunum og í öðrum Evrópulöndum eru að aldursmörk þeirra sem selja má skotelda hafa verið hækkuð, skoteldar hafa verið flokkaðir og ákveðið hverjir eru í hvaða flokki, hvaða flokkar eru ætlaðir til sölu til almennings og hverjir eingöngu til sýninga. Það hafa verið gerðar auknar kröfur um öryggi, gæði, merkingu skotelda og t.d. magn púðurs í skoteldum sem flytja má inn. Það hafa verið settar kröfur um prófun skotelda áður en þeir fara í sölu eða vottun sem viðurkennd er innan ESB á sama máta og rafvörur. Og það hafa verið gerðar kröfur til söluaðila varðandi sölu á varningnum, aldur þeirra sem afgreiða og geymslu skotelda.

Eins og ég sagði áðan hafa aldursmörk við sölu skotelda verið endurskoðuð á undanförnum árum. Ný reglugerð um öryggi skotelda tók gildi í Danmörku haustið 1999 en þar er sala á skoteldum bönnuð til barna undir 18 ára aldri en heimilt er að selja og afhenda börnum eldri en 15 ára stjörnuljós og aðrar álíka vörur sem flokkast undir skotelda og eru yfirleitt ætlaðar til notkunar innan húss.

Í Noregi tók ný endurskoðuð reglugerð sama efnis gildi um mitt ár 1999 og þar er áfram miðað við 18 ára aldursmörk við sölu á skoteldum en miðað við 16 ár í staðinn fyrir 15 ár í Danmörku við minni háttar skotelda í flokki 1. Í Bretlandi er bara almennt miðað við 18 ára aldur, alveg sama hvaða skoteldar það eru. En Bretar hafa verið almennt í fararbroddi þessara landa sem hafa látið sig þessi mál varða.

[12:45]

Ég vil með þessum rökstuðningi koma þessu frv. hér á framfæri og til umræðu. Mælt var fyrir frv. frekar seint síðasta vor. Það var sent ýmsum aðilum til umsagnar. Svör bárust m.a. frá Augnlæknafélagi Íslands, Árvekni -- átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga, Flugleiðum, Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, Kiwanisklúbbnum Þyrli, Akranesi, ýmsum söluaðilum skotelda svo sem íþróttafélögum, Landssambandi lögreglumanna, Læknafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, slysa- og bráðamóttöku Landspítala og slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Flestir umsagnaraðilar fagna framkomnu frumvarpi og lýsa stuðningi sínum við það. Slysavarnafélagið Landsbjörg, KR-flugeldar og Knattspyrnufélag Reykjavíkur lýsa yfir stuðningi við að aldursmörk við kaup á stærri flugeldum séu almennt færð í 18 ár, en mæla með því að lægri aldursmörkum, sem miðast nú við 12 ára aldur, verði haldið. Knattspyrnufélagið Víkingur mælir hins vegar með að miða við ófrávíkjanlegt 16 ára aldursmark við sölu skotelda.

Í umsögn slysa- og bráðamóttöku Landspítalans kemur fram m.a. fram, með leyfi forseta, að ,,óopinberar tölur, sem unnar hafa verið á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar sl. tvo áratugi sýna, að allstór hluti þeirra, sem meiðast af völdum flugelda og skotelda um áramót eru börn og unglingar. Það er gagnstætt leiðbeiningum flestra framleiðenda skotelda að leyfa þessum aldurshópi að handleika flugelda og fara með þá á annan hátt, enda vandmeðfarinn varningur eins og reynslan hefur sýnt.`` Látin er í ljósi von um að Alþingi samþykki frumvarpið og það verði að lögum.

Árvekni, sem er átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga, sem látið hefur sig þessi mál sérstaklega varða, bendir á að allt of mörg alvarleg slys hafi orðið hér á landi árlega af völdum skotelda og bendir á reynslu nágrannalandanna um að þegar þessi mál hafi verið tekin föstum tökum þá hafi slysatíðni af völdum skotelda lækkað verulega.

Landssamband lögreglumanna mælir með því að þetta frv. verði að lögum. Og í umsögn KR-flugelda kemur fram að þeir hafi að eigin frumkvæði fyrir einhverjum árum síðan tekið ákvörðun um að færa aldursmörkin úr 16 í 18 ár vegna kraftmeiri flugelda. Það er því alveg ljóst að þetta frv. nýtur víðtæks stuðnings í samfélaginu og er það vel.

Að lokum vil ég segja að almenn notkun skotelda um áramót er mikil. Tíðni slysa af völdum skotelda hér á landi er há og á það sérstaklega við um slys á börnum. Aldursmörk við sölu á skoteldum til barna hér á landi eru lægri en í löndunum í kringum okkur. Nauðsynlegt er að herða öryggisreglur um meðhöndlun skotelda og reglur um sölu á skoteldum, taka upp flokkun á skoteldum og endurskoða aldursmörk við sölu þeirra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þróunar í nálægum löndum.

Samkvæmt 32. gr. núgildandi vopnalaga er leyfilegt að selja og afhenda skotelda til barna undir 16 ára aldri sé þess getið í leiðbeiningum. Sala á skoteldum er óheimil til barna undir 12 ára aldri. Samkvæmt þessu er það lagt í hendur framleiðanda eða innflytjanda vörunnar að taka ákvörðun um hvort heimilt sé að selja vöruna börnum yngri en 16 ára, en það er í verkahring hans að sjá um að leiðbeiningar um meðferð vörunnar séu límdar á hana.

Með frv. því sem hér er mælt fyrir er lagt til að aldursmörk við sölu skotelda verði færð úr 16 ára aldri til 18 ára aldurs. Þó sé heimilt að selja börnum frá 15 ára aldri skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss. Gert er ráð fyrir að ný reglugerð um skotelda sem væntanleg er innan tíðar setji fastari reglur um flokkun þeirra. Með þeirri breytingu sem lögð er til á 32. gr. vopnalaga með þessu frv. yrði það ekki lengur á valdi framleiðanda eða innflytjanda að ákvarða hvaða skotelda megi selja til yngri aldurshópsins, heldur yrði skýrt kveðið á um það í lögum og nánar útfært í reglugerð um skotelda.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að frv. þetta verði sent hv. allshn. til umfjöllunar.