Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 13:54:06 (1618)

2001-11-15 13:54:06# 127. lþ. 30.7 fundur 45. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (arður frá veiðifélögum) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það kom upp í umræðum hv. landbn. á síðasta þingi að mismunun væri á skattlagningu eftir því hvort jarðir teldust í byggð og rekstri eða hvort þær væru það ekki. Ég verð að segja að þá þegar fannst mér þarna um óþolandi mismunun að ræða sem rétt væri að leiðrétta og að því leyti vil ég taka undir þetta frv. sem fjallar um að jafna rétt þessa fólks. Mér finnst þetta, eins og því er varið í dag, stríða gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég held að mjög brýnt sé að leiðrétta þetta á hvern veginn sem er og þess vegna get ég að því leyti tekið undir efni þess frv. sem hér hefur verið kynnt.

Ég verð að segja að mér finnst að það sama eigi við um sumarbústaðalóðir, að skattlagning eigi að vera sams konar hvort sem jörðin er í rekstri eða telst ekki vera í rekstri. Ég sé ekki að neitt réttlæti sé í öðru. Þess vegna vona ég að frv. sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur lagt hér fram nái fram að ganga.