Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 13:57:22 (1621)

2001-11-15 13:57:22# 127. lþ. 30.8 fundur 46. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., Flm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. sem er 46. mál á þskj. 46, um rannsóknir á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann.

Flutningsmenn ásamt mér eru Árni R. Árnason, Ásta Möller, Vilhjálmur Egilsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Katrín Fjeldsted, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Tómas Ingi Olrich, Guðjón Guðmundsson og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Þáltill. hljóðar þannig:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að standa fyrir faraldsfræðilegri rannsókn á mögulegum áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins.

Rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöðum hennar skilað fyrir 1. október 2011.

Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar strax að henni lokinni.``

Herra forseti. Nýjar erlendar rannsóknir leiða æ meiri líkur að því að rafsegulsvið hvers konar geti haft alvarleg áhrif á heilsu og líðan fólks og jafnvel valdið krabbameini. Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á mannslíkamann eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira að umhverfi okkar til að skoða hvort orsakir sjúkdóma og vanheilsu sé að finna þar, þ.e. hvort rafmagnsmannvirki geti valdið heilsutjóni hjá þeim sem búa í nágrenni þeirra.

Nýverið hefur opinber bresk stofnun viðurkennt opinberlega að tengsl geti verið milli krabbameinstilfella og háspennulína. Rannsóknir framkvæmdar af faraldsfræðingnum Richard Doll leiddu í ljós að börn sem búa í grennd við háspennulínur eiga frekar á hættu að fá krabbamein en önnur börn. Rannsóknarhópur í háskólanum í Toronto í Kanada og Hospital for Sick Children tilkynnti að rannsóknir hefðu sýnt að börn sem búa við há gildi rafsegulsviðs eiga frekar á hættu að fá hvítblæði en börn sem ekki búa við slík skilyrði. Mælingar á heimahögum veikra barna leiddu í ljós að tvisvar til fjórum sinnum meiri líkur væru á að börn með hvítblæði hefðu búið við há gildi rafsegulsviðs.

Jafnframt hafa faraldsfræðilegar rannsóknir Dana og Svía sýnt fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki. Hið sama kann að gilda um fullorðna, en það er ekki vitað fyrir víst. Því er tímabært að hér á landi verði framkvæmd faraldsfræðileg rannsókn á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins. Lagt er til að rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöður hennar kynntar Alþingi eigi síðar en 1. október 2011. Flutningsmenn benda á að slík rannsókn geti farið fram á vegum landlæknisembættisins og hugsanlegt er að hún geti verið afturvirk að einhverju leyti.

Tillaga sama efnis var lögð fram á 126. þingi en komst ekki á dagskrá og er því lögð fram að nýju.

[14:00]

Herra forseti. Þáltill. var lögð fram í kjölfar fyrirspurnar sem ég lagði fyrir hæstv. heilbrrh. í marsmánuði í vor og tilefnið var að ég hef orðið áþreifanlega vör við vaxandi ugg meðal fólks varðandi aukningu krabbameinstilfella og hugsanlega tengsl við staðsetningu háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra.

Það er t.d. hópur fólks á Selfossi sem hefur verið afar uggandi vegna fyrirhugaðs masturs, sem er trúlega komið niður núna, 32 m hás masturs inni í miðjum bænum, og því mætti spyrja: Er þar hætta á ferðum? Fólk hefur kvartað þar undan truflun frá rafmagni og rafsegulsviði og nú hafa bæjaryfirvöld ákveðið að gerð verði úttekt á Grænumörk þar sem íbúðir eldri borgara eru.

Á Íslandi hafa ekki verið settar neinar reglur um leyfilegan styrk rafsegulsviðs. Þær erlendu rannsóknir sem ég gat um áðan hafa einmitt leitt það í ljós æ meir að við eigum að gefa gaum að þessum málum og kanna hvernig og hvers konar áhrif rafsegulsvið hefur á heilsu og líðan fólks og því er ekki fráleitt að tala hér jafnvel um mengun.

En hvernig hefur rafmagn og rafsegulmengun áhrif á heilsu fólks? Er hugsanlegt að staðsetning þessara mannvirkja geti valdið heilsuskaða hjá þeim sem búa í nágrenni við þau?

Umræðan um þessi mál eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meir að því að skoða umhverfi okkar til að komast að því hvort orsakavalda að sjúkdómum og vanheilsu sé þar að finna.

Hvað varðar tengsl milli líkamskvilla og rafsegulsviðs hafa sjónir manna beinst helst að ónæmiskerfinu. Svo virðist sem segulsvið hafi neikvæð áhrif á getu líkamans til að bregðast við sjúkdómum. Ónæmiskerfið er flókið og sennilega lítið þekkt, en mikilvægi þess er mjög mikið. Menn hafa jafnvel leitt að því líkur að áhrif segulsviðs á líkamann virki aðallega á getu ónæmiskerfisins til að nema hættuástand, t.d. byrjun óeðlilegrar frumuskiptingar og hindri þannig að varnarkerfi líkamans nái að hefta myndun æxla.

Herra forseti. Á heimasíðu Landsvirkjunar er að finna töluverðan fróðleik um rafsegulsvið og mig langar til að vitna aðeins í það sem þar stendur, með leyfi forseta:

,,Rannsóknir hafa verið gerðar á því hvort dvöl í rafsegulsviði auki líkur á krabbameini. Þessar rannsóknir hafa bæði verið faraldsfræðilegar og líffræðilegar. Faraldsfræðilegar athuganir`` --- þetta eru reyndar erlendar rannsóknir, þær hafa ekki verið gerðar hér á Íslandi --- ,,byggja á rannsóknum margra tilfella þar sem kannað er með tölfræðilegum hætti hvort þeir sem dvelja lengi í rafsegulsviði eigi fremur á hættu að fá sjúkdóma en aðrir. Samsvarandi faraldsfræðilegar athuganir hafa m.a. sýnt samband á milli reykinga og lungnakrabba. Í lífeðlisfræðilegum rannsóknum er reynt að finna hvort og hvernig rafsegulsvið getur breytt heilbrigðum frumum í krabbameinsfrumur.``

Helstu niðurstöður af þessu eru, vilja þeir meina hér, að reynst hefur erfitt að ná fram tölfræðilega marktækum niðurstöðum þar sem þeir sjúkdómar sem hugað er að eru mjög fátíðir. Það er gert frekar lítið úr þessari hættu og engin ástæða er til að vera að hræða fólk. Með þessari tillögu er ég ekki að því en ég tel að við eigum að gefa þessu gaum. Það eru mjög margir sem kvarta undan óþægindum frá rafmagni og þá er spurningin hvernig við getum komið í veg fyrir það. Það hlýtur að vera hægt að vinna eitthvað á móti því, það er ekki verið að tala um að banna eitt eða neitt í þessu því að rafsegulsvið er ekkert hættulegt í sjálfu sér, en það er hins vegar hægt að nota þennan hluta eðlisfræðilegrar tilveru okkar bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.

Í tímaritinu Heilsuhringnum sem kom út fyrir nokkrum árum er grein þar sem vitnað er í rannsóknir dr. Nancy Wertheimer sem rannsakar faraldssjúkdóma og þar segir:

,,Vordag nokkurn árið 1974 var hún við vinnu sína við að kortleggja hvítblæðisútbreiðslu hjá börnum í útbæ í Denver, Colorado. Þegar hún steig út úr bíl sínum til þess að heimsækja foreldra slíks barns fékk hún á tilfinninguna að hún kannaðist við eitthvað sem hún sá út undan sér. Þegar hún hafði gengið úr skugga um hvað það gæti verið sem tengdist þessum heimsóknum hennar, rann upp fyrir henni ljós; rafmagnsmastur fyrir utan húsið. Efst á því var spennubreytir fyrir umliggjandi hús. Sams konar spennubreyti hafði hún séð nálægt öllum húsunum sem hún hafði heimsótt í sambandi við vinnu sína síðustu mánuði. Hún ákvað að rannsaka málið nánar: ,,Og síðan þá er riðstraumur ekki aðeins rafmagnsorka sem menntaði heimurinn sækir út úr innstungunum til þess að samfélagið geti virkað. Riðstraumurinn hefur breytt sér í mögulega áhættu í mínum huga.``

Áhættan heitir: Krabbamein. Brjóstkrabbi og þvagrásarkrabbi eru aðalsviðin sem liggja undir grun eftir að tækni- og vísindamenn um allan heim hafa rannsakað málið í 15 ár. Og í áhættuhópnum eru persónur sem búa eða vinna langtímum saman á svæðum þar sem ósýnileg hliðarverkun riðstraumsins er: Rafsegulsviðið.``

Herra forseti. Það hefur komið fram í viðtölum við krabbameinslækna að umhverfisþættir vega 70% því læknavísindin væru komin svo langt í þróun lyfja við krabbameini. Kenningar eru um að tengja megi tíðni heilaæxla við notkun farsíma, en ekki er hægt að draga neinar öruggar ályktanir um skaðsemi geislunar vegna notkunar þeirra eða farsímastöðva á heilsu manna. Engu að síður hafa yfirvöld víða erlendis gripið til varúðarráðstafana, m.a. í sveitarfélaginu Nyköbing í Svíþjóð, þar sem víða er nú bannað að reisa loftnet og sendimöstur fyrir GSM-síma vegna geislunar. Farsímafyrirtæki í Sviss hefur verið dæmt til að taka niður GSM-loftnet þar sem talið er að það valdi sjúkleika hjá mönnum.

Herra forseti. Ég tel að við eigum að fara að öllu með gát og rannsaka alla þessa þætti og gera síðan ráðstafanir í kjölfarið. Varúðarreglu er oft beitt við lagningu orkuflutningslína og er þá leitast við að hafa þær ekki nálægt byggingum eins og barnaskólum eða barnaheimilum.

Sem dæmi má nefna norska reglugerð þar sem ákveðið er að staðir þar sem börn dveljast langdvölum séu ekki nær 400 kílóvatta línu en 18 metra. Heilbrigðiskerfi okkar er eitt besta í heimi og við Íslendingar eigum að vera í forustu á því sviði. Þrátt fyrir fámenni eigum við að hafa þann metnað að rannsaka málin sjálf en bíða ekki alltaf eftir niðurstöðum erlendis frá. Það er t.d. hægt í krabbameinsrannsóknum þegar verið er að spyrja sjúklinga hvar þeir hafi búið sl. tíu ár þannig að rannsóknin fari í þann feril aftur fyrir sig til að hún hafi kannski meiri þýðingu og það væri þá t.d. liður í faraldsfræðilegri rannsókn.

Herra forseti. Eftir umræðu um þessa þáltill. legg ég til að henni verði vísað til heilbrn. Alþingis.